Elon Musk, forstjóri Twitter, heldur því fram að Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull og fyrrum hönnuður hjá tæknirisanum, hafi ekki unnið hjá fyrirtækinu og þar af leiðandi hafi ekki verið hægt að reka hann.
Í tísti frá því fyrr í dag segir forstjórinn að Haraldur, sem er með vöðvarýrnunarsjúkdóm, hafi notað fötlun sína sem afsökun fyrir því að hann gæti ekki skrifað á lyklaborð.
„Ég get ekki sagt að ég beri mikla virðingu fyrir því,“ segir í tísti Musk.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í morgun kom til orðaskipta milli Elon Musk og Haralds í nótt. Forstjórinn var vægast sagt kaldranalegur við Íslendinginn og hló meðal annars að honum.
Deilan hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla og BBC hefur m.a. fjallað um hana.
Haraldur, eða Halli eins og hann er gjarnan kallaður, hafði ekki fengið formlegt svar frá Twitter um hvort að honum hefði verið sagt upp hjá fyrirtækinu en aðgangnum að vinnutölvunni hans var lokað fyrir einni og hálfri viku.
Eftir að hafa gefist upp á að senda tölvupósta á yfirmenn fyrirtækisins ákvað hann að reyna að spyrja á Twitter.
Í stað þess að svara spurningu Haralds byrjaði Musk á því að spyrja út í þá vinnu sem hann hafði unnið fyrir fyrirtækið. Eftir að hafa fengið svör við þeim spurningum, brást Musk m.a. við með því að hlæja.
Haraldur var öllu kurteisari og tók ítrekað fram að hann væri ekki að gagnrýna uppsögnina, fyrirtækið hefði fullan rétt á því að láta starfsfólk fara. Aftur á móti væri eðlilegra að láta vita, til að mynda með uppsagnarbréfi.
Þá vildi Haraldur fá að vita hvort að hann fengi ekki örugglega greitt samkvæmt þeim samningi sem hann gerði við fyrirtækið. Musk svaraði því ekki.
Í samtali við BBC kveðst Haraldur óttast að fyrirtækið muni ekki virða samninginn. Segir hann ástandið mjög streituvaldandi enda sé eftirlaunasjóður hans undir.