Bakmút gæti fallið „á næstu dögum“

Úkraínskir hermenn kveikja eld með byssupúðri til að hlýja sér, …
Úkraínskir hermenn kveikja eld með byssupúðri til að hlýja sér, skammt frá Bakmút fyrr í vikunni. AFP/Aris Messinis

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), varaði við því í morgun að borgin Bakmút í austurhluta Úkraínu gæti fallið í hendur Rússa á næstu dögum eftir harða bardaga.

„Við sjáum að Rússar eru að kasta inn fleiri hersveitum, meira afli og það sem Rússa skortir í gæðum reyna þeir að bæta fyrir með magni,“ sagði Stoltenberg við blaðamenn í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, þar sem varnarmálaráðherra ESB funduðu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP/Jonathan Nackstrand

„Þeir hafa orðið fyrir miklu mannfalli en á sama tíma getum við ekki útilokað að Bakmút muni á endanum falla á næstu dögum.

„Það er einnig mikilvægt að benda á að þetta þýðir ekki endilega neinn vendipunkt í stríðinu,“ bætti hann við.

Rússneska málaliðasveitin Wagner sagðist í morgun hafa náð völdum yfir austurhluta Bakmút, iðnaðarborgar þar sem Rússar og Úkraínumenn hafa barist hart síðustu mánuði. Áður hafði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti varað við því að ef Bakmút félli myndu Rússar öðlast „opna leið“ til sóknar lengra inn í landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert