Fjórir létust og 23 slösuðust þegar farþegalest skall á varnarstuðara lestarstöðvar í borginni Qalyub norður af Kaíró í Egyptalandi í gær.
Töluvert hefur verið um banaslys á járnbrautarkerfum landsins að undanförnu sem að mestu eru talin vegna gamalla og illa viðhaldinna innviða en í mars árið 2021 létust að minnsta kosti 20 manns og tæplega 200 slösuðust til viðbótar í lestarslysi í suðurhluta Egyptalands.
Járnbrautastofnun ríkisins sagði ökumanninn hafa farið yfir stöðina í gegnum stöðvunarmerki og keyrt inn í þessa varnarstuðara. Stuðararnir gegna því hlutverki að stöðva lestir frá því að fara fram af enda járnbrautarteina.
„Þetta leiddi til þess að lestin fór út af sporinu,“ sagði í yfirlýsingu stofnunarinnar.
Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, hefur heitið því að gera hlutaðeigandi ábyrga á endurteknum banaslysum á járnbrautakerfinu.
Samið hefur verið um byggingu fyrsta hluta nýs háhraðalestarkerfis til að leysa af hólmi núverandi járnbrautarkerfi í einu af stærstu verkefnum stjórnar Abdel Fattah al-Sisi.