Sameinuðu þjóðirnar telja að myndskeið sem virðist sýna aftöku úkraínsks fanga í haldi rússneskra hermanna gæti verið ófalsað.
Í myndskeiðinu virðist úkraínskur hermaður standa í grunnri skotgröf þegar hann er skotinn til bana með sjálfvirku vopni eftir að hafa sagt „Dýrð sé Úkraínu“.
„Við vitum af þessum myndskeiði sem var birt á samfélagsmiðlum sem sýnir úkraínskan hermann, ekki í bardaga, sem virðist vera tekinn af lífi af rússneskum hermönnum. Miðað við bráðabirgðarannsókn teljum við að myndskeiðið gæti verið raunverulegt,“ sagði talskona mannréttindastofnunar Sameinuðu Þjóðanna.
„Síðan vopnaðar árásir Rússa á Úkraínu hófust fyrir rúmu ári síðan hefur manndréttindastofnunin skrásett fjölda brota á alþjóðlegum mannréttindalögum gegn stríðsföngum, þar á meðal aftökur á bæði rússneskum og úkraínskum föngum,“ sagði hún og bætti við að rannsaka þyrfti öll þessi mál betur og draga hina seku til ábyrgðar.
Úkraínumenn hafa heitið því að hefna fyrir meintu aftökuna og hafa óskað eftir rannsókn Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins á málinu.