Sagðist hata Trump af ástríðu

Tucker Carlson er einn vinsælasti sjónvarpsmaður í Bandaríkjunum, þó að …
Tucker Carlson er einn vinsælasti sjónvarpsmaður í Bandaríkjunum, þó að hann sé sannarlega umdeildur. AFP

Tucker Carlson, sjónvarpsmaður hjá Fox News í Bandaríkjunum, sagði í skilaboðum til samstarfsfélaga í janúar 2021 að hann hataði Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, af ástríðu. 

Fréttastofa BBC greinir frá þessu.

Skilaboð Carlson voru opinberuð í meiðyrðamáli fyrirtækisins Dominion Voting System, sem framleiðir kosningavélar, gegn fréttastofu Fox News. Fyrirtækið sakar Fox News um að halda á lofti sögusögnum um svindl í kosningum vestanhafs án þess að hafa nokkur rök fyrir máli sínu.

„Ekkert jákvætt við Trump“

Fox News hefur tekið til varna og neitar ásökununum og segir að fyrirtækið taki innslög úr samhengi. Nýjustu gögn í málinu sína að Carlson hafi lýst yfir óánægju sinni með fyrrverandi forseta tveimur dögum áður en að stuðningsmenn hans réðust inn í þinghús Bandaríkjanna. 

„Við erum svo nálægt því að geta hunsað Trump flest kvöld. Ég get í alvöru ekki beðið. Ég hata hann af ástríðu,“ sagði Carlson í skilaboðunum til samstarfsfélaga síns.

Carlson er vinsælasti sjónvarpsmaður Fox News og hefur lengi hrósað honum í hástert í útsendingu en virðist miðað við skilaboðin ekki vera mjög hrifin af fyrrverandi forsetanum í raun.

„Við erum öll að þykjast að síðustu fjögur ár hafi veitt okkur mikið því að það að viðurkenna hversu mikil hörmung þau voru væri of erfitt að melta. En í alvöru. Það er ekkert jákvætt við Trump,“ sagði enn fremur í skilaboðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert