Stjórnendur Heathrow sagðir ofrukka flugfélög

Frá Heathrow-flugvellinum í Bretlandi.
Frá Heathrow-flugvellinum í Bretlandi. AFP

Flugeftirlitsaðilar í Bretlandi hafa skipað stjórnendum Heathrow-flugvallar að lækka hin ýmsu gjöld sem völlurinn rukkar flugfélög um. Ekki sé lengur þörf á því að innheimta þessi gjöld þar sem von sé á að ferðamannaiðnaðurinn komist á fyrri siglingu áður en langt um líður.

Eftirlitsaðilar segja afnám gjalda geta skilað sér í lægri kostnaði fyrir farþega. Gjaldalækkunin mun þó ekki taka gildi fyrr en árið 2024.

Stjórnendur Heathrow eru ekki par sáttir við þessa ákvörðun. Þeir segja flugeftirlitsaðila skera niður gjöldin til flugvallarins á tímum velmegunar hjá flugfélögum en á meðan skapi gjaldamissirinn tap fyrir flugvöllinn.

Þá þykir sumum flugfélögum gjaldalækkunin ekki ganga nógu langt þar sem Heathrow rukki flugfélögin þrisvar sinnum meira á hvern farþega en margir aðrir evrópskir flugvellir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert