Þakkaði konum fyrir að verja Úkraínu

Selenskí Úkraínuforseti.
Selenskí Úkraínuforseti. AFP/Genya Savilov

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, þakkaði úkraínskum konum á Alþjóðlegum degi kvenna, fyrir að vera í lykilhlutverki við að verja landið gegn innrás Rússa.

„Það er mikilvægt að þakka fyrir í dag. Að þakka öllum konunum sem starfa, kenna, rannsaka, bjarga, hjúkra og berjast –  berjast fyrir Úkraínu,“ sagði Selenskí í myndbandsávarpi.

Hann bætti við að í dag sé rétt „að minnast, hugsa um og þakka öllum konum sem fórnuðu lífum sínum í þágu landsins okkar“.

„Sameinuð erum við sterk. Sameinuð erum við ósigrandi. Sameinuð erum við frjáls. Og sameinuð munum við tvímælalaust vinna. Það munum við gera,“ sagði Selenskí.

Mannréttindahópar segja að aukin byrði hafi verið lögð á úkraínskar konur í stríðinu, sérstakega þegar kemur að umönnun. Einnig hafa þeir varað við auknu kynbundnu ofbeldi og mansali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert