Þungur róður framundan hjá Erdogan

Recep Tayyip Erdogan forseti heimsækir borgina Kahramanmaras í suðaustur-Tyrklandi.
Recep Tayyip Erdogan forseti heimsækir borgina Kahramanmaras í suðaustur-Tyrklandi. AFP/Adem Altan

Útlit er fyrir að Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands muni eiga erfitt uppdráttar í næstu kosningum þar í landi sem verða nú í vor. Ástæðan er sögð vera léleg og svifasein viðbrögð stjórnvalda eftir jarðskjálftana sem lögðu marga bæi í rúst.

Fréttamiðillinn Reuters tók viðtöl við íbúa í þorpinu Cigdemtepe, borginni Kahramanmaras og á fleiri stöðum í Tyrklandi um stuðning þeirra við forsetann. Bæjarstæði í suðaustur Tyrklandi eru sögð hafa stutt flokk Erdogan, AKP í fjölda ára en það geti nú verið að breytast.

Þjóðin enn í sárum

Þing- og forsetakosningar munu fara fram þann 14. maí í Tyrklandi. Vegna jarðskjálftans sem reið yfir Tyrkland og Sýrland þann 6. febrúar gætu kosningarnar reynst þær erfiðustu fyrir Erdogan og hans flokk í langan tíma.

Ákvörðun stjórnvalda, að halda kosningarnar þann 14. maí hefur fengið misgóð viðbrögð og hafa einhverjir bent á að þjóðin sé enn í sárum.

Meira en 40 þúsund manns hafa látið lífið í Tyrklandi og Sýrlandi og hafa yfirvöld sem og heimsbyggðin verið gagnrýnd fyrir sein viðbrögð eftir skjálftann. Hjálp hafi borist fórnarlömbum skjálftans seint og illa.

Fljótlega eftir skjálftann viðurkenndi Erdogan sein viðbrögð stjórnvalda og sagði að stjórnvöldum hefði ekki tekist „að hraða inngripi“ eins og þau hefðu viljað.

Kannanir taka ekki mið af verstu skjálftasvæðum

Greint er frá því að fyrstu kannanir er varða stuðning fólks við Erdogan sýni að hann hafi að miklu leyti náð að halda stuðningsmönnum sínum. Þó séu teikn á lofti hvað varðar mikla andstöðu í hans garð vegna viðbragða eftir skjálftann. Ljóst þykir að mikil barátta geti verið í vændum.

Lítið sé um kannanir í litlu þorpunum í suðaustur Tyrklandi og því sé erfitt að vita hversu mikinn stuðning Erdogan hefur í raun. Þá hafi kannanir í raun ekki tekið púlsinn á fólkinu sem lenti hvað verst í skjálftanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert