Hörð mótmæli hafa brotist út í Tbílisi, höfuðborg Georgíu, vegna lagafrumvarps sem hefur verið lagt fram á þingi, en gagnrýnendur telja að það muni takmarka frelsi fjölmiðla og vega að stoðum lýðræðisins.
Þúsundir gengu fylktu liði til að mótmæla frumvarpinu sem hefur nú farið í gegnum fyrstu umræðu á þinginu. Hafa mótmælendur m.a. kastað bensínsprengjum í átt að lögreglunni sem reyndi að brjóta mótmælin á bak aftur með táragasi og kraftmiklum vatnsbyssum.
Í myndskeiðum í dreifingu af mótmælunum má sjá mótmælendur falla til jarðar hóstandi, meðan aðrir veifa fána Evrópusambandsins og Georgíu.
Frumvarpið, sem kveður m.a. á um að fjölmiðlar og frjáls félagasamtök með tengsl erlendis verði skráningarskyld, svipar til löggjafar í Rússlandi sem hefur verið notuð til að berjast gegn andófi
Undanfarin ár hafa stjórnvöld í Georgíu mátt þola mikla gagnrýni vegna ákvarðana sem taldar eru vega að lýðræðinu. Hefur þetta haft skaðleg áhrif á samskipti Tbílisi og Brussel.
Bandaríska sendiráðið í Georgíu hefur sagt frumvarpið í andstöðu við markmið landsins um að verða hluti af Evrópusambandinu en stjórnvöld í landinu sóttu um aðild skömmu eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst.
Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, hefur lýst yfir stuðningi við mótmælendur og heitið því að beita neitunarvaldi verði lagafrumvarpið samþykkt á þinginu.
„Ég stend með ykkur því þið talið fyrir frjálsri Georgíu sem sér fyrir sér framtíð í Evrópu og mun ekki leyfa neinum að stela þeirri framtíð,“ sagði hún í ávarpi sem var tekið upp á myndskeið þar sem hún er stödd í Bandaríkjunum í opinberri heimsókn.
„Enginn á rétt á því að stela framtíð ykkar,“ bætti hún við og mátti sjá frelsisstyttuna í bakgrunninum.