Stjórnvöld í Rússlandi segja fregnir um að hópur hliðhollur Úkraínu, með engin tengsl við stjórnvöld þar í landi, hafi staðið fyrir skemmdarverkunum á Nord-Strem gasleiðslunum á síðasta ári, ekki sannar.
Fjórir stórir gaslekar uppgötvuðust á leiðslunum í september í fyrra, sem flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands.
Stjórnvöld í Rússlandi og Vesturlandanna hafa sakað hvort annað um eyðilegginguna.
Í umfjöllun New York Times hefur komið fram að engin gögn bendli Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, við verknaðinn. Ekki liggur þó fyrir hvaðan miðillinn hefur þær heimildir.
„Það er alveg ljóst að þeir sem skipulögðu árásina ætluðu sér að villa um fyrir fólki. Þetta er greinilega vel skipulögð fjölmiðlaherferð,“ segir Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar.
Sænsk, dönsk og þýsk stjórnvöld rannsaka nú atburðinn en þau hafa ekki opinberlega sakað neinn um árásina.
„Okkur hefur enn ekki verið heimilað að taka þátt í rannsókninni,“ segir Peskov.
Háttsettir embættismenn í Úkraínu hafa neitað allri sök í málinu og kvaðst Mikhaíló Pódoljak, ráðgjafi Selenskís, sömuleiðis ekki hafa fengið neinar upplýsingar um að hópur hliðhollur úkraínskum yfirvöldum sé á bak við eyðilegginguna.