Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir að Rússar gerðu loftárásir á orkuinnviði víðsvegar um Úkraínu í nótt.
Rafmangsleysi varð víða vegna árásanna í Úkraínu í nótt, þar á meðal í kjarnorkuverinu Zaporizhzhia, sem er það stærsta í Evrópu.
„Á þessari stundu er vitað um fjóra látna. Þetta eru fjórir fullorðnir einstaklingar. Tveir menn og tvær konur,“ skrifaði Maksym Kozytsky, héraðsstjóri Lviv, á Telegram og bætti við að flugskeyti hefði lent á heimili fólksins. Einn til viðbótar fannst látinn í héraðinu Dnipropetrovsk.
Rússar hafa í marga mánuði gert árásir á lykilstaði í Úkraínu með flugskeytum og drónum, sem hafa haft áhrif á vatnsnotkun og hita- og rafmangsveitu í landinu með slæmum afleiðinum fyrir milljónir manna.
Vitalí Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, sagði 15 prósent heimila vera án rafmagns og 40 prósent heimila án hita eftir sprengingar á tveimur svæðum í borginni í nótt. „Tveir særðust,“ sagði hann.
Loftárásirnar stöðvuðu rafmangsflutning til kjarnorkuversins Zaporizhzhi, sem rússneskar hersveitir ráða núna yfir. Í sjötta sinn síðan þeir hrifsuðu þar til sín völd er kjarnorkuverið starfrækt með aðstoð díselrafala.
Einnig voru gerðar árásir á önnur orkuver á þó nokkrum öðrum svæðum í Úkraínu, þar á meðal í Karkív í norðausturhluta landsins og Odesa í suðvestri. Í Karkív, sem er staðsett við landmærin að Rússlandi, sagði héraðsstjórinn Oleg Synegubov að 15 árásir hefðu verið gerðar.
Fréttin hefur verið uppfærð eftir nýjar fregnir af fjölda látinna eftir árásirnar.
Uppfært kl. 7.50:
Úkraínumenn segja að loftvarnir landins hafi skotið niður á fjórða tug flugskeyta sem Rússar skutu í átt að landinu.
Hershöfðinginn Valerí Zaluzhní sagði Rússa hafa skotið á loft 81 flugskeyti frá mismunandi stöðum. Úkraínumenn hefðu eyðilagt 34 þeirra.