Frumvarpið dregið til baka eftir mikil mótmæli

Mótmælendur fyrir utan þinghúsið í Tbílisi.
Mótmælendur fyrir utan þinghúsið í Tbílisi. AFP

Stjórnarflokkur Georgíu, Draumaflokkurinn, segir að frumvarp þeirra um „erlenda erindreka“ verði fellt, eftir harðvítuga andstöðu almennings síðastliðna tvo sólarhringa.

Ofbeldisfull mótmæli hafa brotist út í höfuðborginni Tbí­lisi en frumvarpið hefur verið gagnrýnt fyrir forræðishyggju þar sem það myndi draga úr fjölmiðlafrelsi og viðleitni landsins til aðildar að Evrópusambandinu.

Frumvarpið kveður á um að fjölmiðlar sem hljóti meira en 20 prósent af rekstrarfé sínu að utan þurfi að skrá sig sem „erlendan aðila“.

„Nei við Rússneskum lögum“

Um 60 mótmælendur voru handteknir fyrir utan þinghúsið í Tbílisi og beitti lögregla raf­vopn­um, tára­gasi og öfl­ug­um háþrýstidæl­um á fólk.

Mótmælendur sem báru fána frá Georgíu, ESB og Úkraínu söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið og hrópuðu: „Nei við rússneskum lögum“.

Almennt ríkir mikil andstaða gegn Rússlandi í Georgíu, sem áður tilheyrði Sovétríkjunum, og mikill þjóðarvilji er fyrir því að ganga í ESB, en umsókn Georgíu er enn til skoðunar.

Áþekk lög um fjölmiðla eru í Rússlandi, en Josep Borrell, yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, segir þau ekki vera í samræmi við gildi sambandsins.

Stjórnarandstaðan hvetur fólk til þess að koma aftur saman í kvöld. Tsotne Koberidze, meðlimur stjórnarandstöðunnar, segir mikilvægt að fá það á hreint hvernig ríkisstjórnin ætli að hverfa frá frumvarpinu, því enn sem komið er séu áform þeirra óljós.

„Þetta er stóra tækifærið okkar til að slíta öll tengsl við Rússland. Við viljum standa með Evrópusambandinu.“

Rússneskur milljarðamæringur með völdin

Draumaflokkurinn hefur verið stjórnarflokkur landsins frá árinu 2012 en formaður flokksins er rússneski milljarðamæringurinn Bidzina Ivanishvili, og er hann talinn fara með mikið vald innan flokksins.

Gagnrýnendur Draumaflokksins halda því fram að Ivanishvili bendli Georgíu við Rússland, þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning þjóðarinnar við Úkraínu, en ríkisstjórn Georgíu hefur til að mynda ekki sameinast Vesturlöndum í að beita Rússland refsiaðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert