Karl og kona fundust látin á heimili í borginni Luleå í Svíþjóð. Lögreglan hefur handtekið karlmann í tengslum við málið.
Að sögn lögreglu verður hann yfirheyrður vegna málsins í dag.
Fram kemur í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins SVT, að lögreglan hafi verið með mikinn viðbúnað vegna málsins. Stórt svæði var girt af á meðan lögreglan athafnaði sig á vettvangi.
Að sögn sjónarvotta mátti heyra öskur rétt fyrir klukkan sjö að staðartíma í morgun. Skömmu síðar gekk berfættur og alblóðugur karlmaður út úr húsinu. Vopnaðir lögreglumenn, sem komu á staðinn, handtóku manninn, sem fyrr segir.
Maðurinn er grunaður um að hafa myrt fólkið, en fram kemur í umfjöllun SVT að maðurinn sé skyldur hinum látnu.