Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, var fluttur á sjúkrahús í gær eftir að hafa hrasað og dottið í samkvæmi sem hann hélt á hóteli í höfuðborginni Washington, að sögn talsmanns hans.
Frekari upplýsingar um líðan McConnell eftir atvikið hafa ekki verið veittar.
McConnell, sem er 81 árs og frá Kentucky, hefur setið sjö kjörtímabil fyrir hönd Repúblikana í öldungadeild og er er sem stendur leiðtogi minnihlutans. Hann hefur lengi verið mikill andstæðingur forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, í sambandi við ýmis löggjafarmál.
Áður leiddi McConnell meirihluta öldungadeildarinnar og var hægri hönd Donald Trumps í að knýja áfram val á íhaldssömum hæstaréttardómurum. Trump skipaði með samþykki öldungadeildarinnar þrjá íhaldssama dómara, en það er talið hafa opnað dyrnar fyrir dómstólinn til að afnema rétt til þungunarrofs á landsvísu, í júní á síðasta ári.
Samkvæmt frétt BBC News er þetta ekki í fyrsta skipti sem McConnell dettur, en árið 2019 datt hann og brotnaði þá á öxl. Í viðtali við Associated Press árið 2020 kvaðst McConnell hafa þjáðst af lömunarveiki sem barn, sem hafi skert hreyfigetu hans miðað við jafnaldra hans. McConnell sagðist enn eiga erfitt með að ganga upp stiga í kjölfarið.