Sagður hafa hylmt yfir barnaníð

Jóhannes Páll páfi II kyssir barn á höfuðið í Vatíkaninu …
Jóhannes Páll páfi II kyssir barn á höfuðið í Vatíkaninu árið 2003. AFP/Vincenzo Pinto

Jóhannes Páll páfi II vissi af málum sem tengdust barnaníði kaþólskra presta í Póllandi og aðstoðaði við að hylma yfir þau áður en hann varð páfi árið 1978, að því er kemur fram í nýrri bók.

Hollenski blaðamaðurinn Ekke Overbeek eyddi rúmum áratug í að rýna í gögn og taka viðtöl við fórnarlömb og vitni fyrir bókina Maxima Culpa sem hefur vakið mikla hneykslan í heimalandi páfans, Póllandi. 

„Ég fann sönnunargögn um að hann vissi ekki bara...um mál tengd kynferðisofbeldi á meðal sinna eigin presta í erkibiskupsdæminu í Kraká, heldur aðstoðaði hann einnig við að hylma yfir sum þeirra,“ sagði Overbeek við AFP-fréttastofuna áður en bókin kom út í gær.

Jóhannes Páll páfi árið 2002.
Jóhannes Páll páfi árið 2002. AFP/Vincenzo Pinto

Overbeek, sem hefur búið í Póllandi í yfir 20 ár, hefur áður gefið út bók um fórnarlömb barnaníðinga úr röðum presta árið 2013 sem vakti mikla athygli.

Mál prests og tíu ára stúlku

Á meðal þeirra mála sem Overbeek nefnir er þegar prestur var sakaður um þvinga tíu ára stúlku til munnmaka. Að sögn blaðamannsins játaði presturinn þetta við erkibiskupinn Karol Wojtyla, síðar Jóhannes Pál páfa II, árið 1970.

„Hann viðurkenndi fyrir Wojtyla allt sem hann gerði. Og þessu er lýst í tveimur skjölum, jafnvel þremur,“ sagði hann.

„Og þetta þýðir að við vitum með 100 prósenta vissu að árið 1970 vissi Karol Wjtyla þegar um kynferðisofbeldi.“

Umræddur prestur var síðar fangelsaður en eftir hann var látinn laus leyfði Wojtyla honum að halda áfram störfum fyrir sig.

„Og þetta er staðfest í bréfi sem erkibiskupinn Wojtyla skrifaði sjálfur,“ sagði Wojtyla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert