Samfélag Votta Jehóva í Þýskalandi segist vera „afar sorgmætt“ vegna skotárásarinnar í borginni Hamborg í gærkvöldi sem það segir að hafi beinst gegn fólki úr söfnuðinum.
„Trúarsamfélagið er afar sorgmætt vegna þessarar hryllilegu skotárásar á fólk úr söfnuðinum í Kingdom Hall í Hamborg að lokinni trúarsamkomu,“ sagði í yfirlýsingu frá Vottum Jehóva.
„Þó nokkrir létust og aðrir særðust alvarlega,“ sagði þar einnig.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði hug sinn vera hjá fórnarlömbum árásarinnar. „Þó nokkrir úr hópi Votta Jehóva urðu fórnarlömb grimmilegs ofbeldis í gærkvöldi,“ sagði Scholz á Twitter. „Hugur minn er hjá þeim og ástvinum þeirra.“
Talið er að árásarmaðurinn sé á meðal þeirra sem létust.
Lögreglan hefur ekki gefið upp fjölda látinna en fjölmiðlar hafa greint frá því að sjö hafi látist og átta særst.
„Sem stendur eru engar áreiðanlegar upplýsingar fyrir hendi um ástæðuna að baki verknaðinum,“ sagði lögreglan í tilkynningu.