Heimsþekktur skákskýrandi, -þjálfari og stórmeistari er til rannsóknar hjá skáksambandinu í Saint Louis fyrir kynferðisbrot. Fyrrverandi Bandaríkjameistari kvenna, Jennifer Shahade, sakaði stórmeistarann Alejandro Ramirez um að hafa áreitt sig kynferðislega í tvígang, að því er Wall Street Journal fjallaði um fyrr í vikunni.
Ramirez hefur tjáð sig á almennan hátt og sagst styðja þolendur en lögmaður hans mun ekki tjá sig um efni ásakana að svo stöddu.
Shahade greindi frá áreitninni í tísti nýverið og rigndi í kjölfarið inn skilaboðum. Nú hafa átta konur stigið fram og lýst því í samtali við miðilinn að Ramirez hafi á ofbeldisfullan hátt kysst þær og þreifað á þeim án samþykkis. Þrjár kvennanna voru undir lögaldri þegar meintu brotin áttu sér stað.
Shahade gagnrýnir Skáksamband Bandaríkjanna og Skáksamband Saint Louis fyrir að hafa ekkert aðhafst eftir að samböndunum bárust tilkynningar um áreitni af hálfu Ramirez.
Ramirez er 34 ára og var um tíma næstyngsti stórmeistari heims og sá fyrsti frá Mið-Ameríku til þess að öðlast titilinn. Samhliða taflmennsku hefur hann tekið að sér að þjálfa elítuskákmenn og ungmenni en þá hefur hann einnig áunnið sér gott orðspor sem skákskýrandi á sterkustu mótum heims.
Ramirez sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar ásakana, þar sem hann tilgreindi að hann hefði látið af störfum sem skákþjálfari hjá Skáksambandi Saint Louis og í Háskólanum í Saint Louis. Lögmaður Ramirez, Albert Watkins, hefur ekki sagt að Ramirez neiti sök en sagði í skriflegu svari til Wall Street Journal að rangar frásagnir af atvikum síðan í fyrra séu uppskrift að slysi, bæði fyrir þolendur og þann sem situr undir ásökunum.
Watkins sagðist ekki munu tjá sig um efni ásakana sem fram hafa komið.
„Vegna viðkæms eðlis allra málefna sem tengjast „Me-too“ hefur Ramirez sagt að hann styðji alla sem veki athygli á slíkum málum.“