Í Sao Paulo mátti sjá fjölda hjólreiðamanna með hjálma á höfðinu – eða ekki – og ekki í neinu öðru hjóla um göturnar í dag. Hópur þrjátíu hjólreiðamanna ákváðu að hafa þennan nakta gjörning til þess að vekja athygli á hversu viðkvæmir hjólreiðamenn eru í almennri umferð.
Flestir hjólreiðamennirnir á Paulista breiðstrætinu í Sao Paulo voru alveg naktir en þeir hógværari mættu þó í nærfötunum. Gjörningurinn er liður í átaksverkefninu „Hjólum allsber“ sem er ein leið hjólreiðamanna til að vekja athygli á stöðu hjólreiðafólks í umferðinni.
„Við erum nakin á einni stærstu götu Rómönsku Ameríku og það sýnir að við erum berskjölduð fyrir hraðanum og ofbeldi og yfirgangi bíla,“ sagði Allis Bezerra, skeggjaður 41 árs ljósmyndari, í samtali við AFP fréttastofuna.
„Þessi hreyfing á að sýna samfélaginu fram á hversu mikilvæg við erum. Með því að nota hjólin sem samgöngutæki getum við fækkað mengandi bílum af götunni.“
Andresa Aguida, 43 ára listakona, lét mála skilaboðin „Umhverfisvænar hjólreiðar“ á magann á sér áður en hún lagði af stað, berbrjósta, niður Paulista Avenue.
„Ökumenn sýna okkur enga virðingu þegar við erum að hjóla,“ sagði hún. „Þeir flauta og virðast vera að segja: Hreyfðu þig eða ég keyri þig niður.“
Árið 2021 voru meira en 16 þúsund hjólreiðamenn lagðir inn á sjúkrahús vegna umferðarslysa, eða að meðaltali 44 á dag, samkvæmt rannsókn samtaka umferðarlækna í Brasilíu sem var birt í júní síðastliðnum.
Átaksverkefnið „Hjólum allsber“ mun verða með sams konar gjörning á götum Rio de Janeiro næsta laugardag.