Saudi Aramco hagnaðist um 23 þúsund milljarða

Amin Nasser, forstjóri Aramco og Yasir al-Rumayyan stjórnarformaður Aramco.
Amin Nasser, forstjóri Aramco og Yasir al-Rumayyan stjórnarformaður Aramco. AFP

Ríkisolíufélag Sádi-Arabíu, Saudi Aramco, var rekið með 161,1 milljarða bandaríkjadala hagnaði á síðasta ári, eða því sem nemur 23 þúsund milljörðum króna. Um er að ræða mesta hagnað sem félagið hefur skilað síðan það var skráð á hlutabréfamarkað árið 2019.

„Skortur á fjárfestingu í okkar bransa er raunverulegt vandamál, þar sem við munum ekki komast af án jarðefnaeldsneytis í náinni framtíð. Það gæti leitt til hærra eldsneytisverðs,“ hefur fréttastofa AFP eftir Amin Nasser, forstjóra Saudi Aramco. 

Þess ber að geta að Sádi-Arabía hefur einsett sér að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2060.

Amnesty International gagnrýnir hagnaðinn

Verð á eldsneyti hefur hækkað hratt eftir innrás Rússa í Úkraínu. Amnesty International hefur gagnrýnt félagið harðlega þar sem notkun jarðefnaeldsneytis er talin eiga drjúgan þátt í hlýnun jarðar.

„Okkur þykir hneykslanlegt að fyrirtæki geti hagnast um 161,1 milljarða bandaríkjadala á einu ári vegna sölu jarðefnaeldsneytis – meginorsakar hamfarahlýnunar,“ er haft eftir Agnes Callamard, aðalritara mannréttindasamtakanna Amnesty International, í yfirlýsingu samtakanna.

„Það sem er enn hneykslanlegra, er að fyrirtækið skilar þessum hagnaði á kostnað stríðsástands, þar sem olíuverð hefur hækkað um allan heim vegna stríðs Rússa í Úkraínu.“

Amnesty segir hagnað Aramco vera „þann mesta sem mælst hefur hjá einu fyrirtæki á einu ári“ og telur að hagnaðinn beri að nýta til þess að standa með mannréttindum og fjármagna orkuskipti.

Aðrir olíurisar skila minni hagnaði

„Aramco naut góðs af hækkun eldsneytisverðs árið 2022. Þetta er það sem fyrirtækið er búið undir,“ segir Robert Mogielnicki hagfræðingur í samtali við AFP.

Olíurisarnir fimm, Shell, Chevron, ExxonMobil, BP og TotaleEnergies, skiluðu yfir 150 milljarða dala hagnaði á síðasta ári, sem hefði slegið í 200 milljarða hefðu fyrirtækin ekki dregið sig frá rússneskum markaði vegna efnahagsþvingana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert