Svíar fordæma dauðarefsingu yfir Habib Chaab

Chaab var dæmdur til dauða fyrir „spillingu á jörðu“ fyrir …
Chaab var dæmdur til dauða fyrir „spillingu á jörðu“ fyrir að hafa stýrt uppreisnarhópi. AFP/Majid Azad

Svíar fordæma ómannúðlega dauðarefsingu yfir hinum sænsk-íranska Habib Chaab og leita frekari skýrleika í málinu. Dauðadómur yfir Chaab fyrir hryðjuverk var staðfestur af dómsvaldinu í Íran í dag.

„Dauðadómurinn er ómannúðleg og óafturkræf refsing og Svíþjóð, ásamt öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins, fordæmir hana undir öllum kringumstæðum,“ sagði Tobias Billstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar, eftir að Hæstiréttur Írans staðfesti úrskurð frá 6. desember.

Chaab var þá dæmdur til dauða fyrir „spillingu á jörðu“ fyrir að hafa stýrt uppreisnarhópi.

Í haldi síðan árið 2020

Hann hefur verið í haldi í Íran síðan í október árið 2020 eftir að hann hvarf í heimsókn sinni til Tyrklands og réttarhöld voru haldin yfir honum í Tehran.

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefur yfirvöldum í Svíþjóð ekki verið veittur aðgangur að Chaab.

Í úrskurðinum kemur fram að Chaab hafi verið dæmdur fyrir „stofnun, stjórnun og forystu uppreisnarhóps sem kallast Harakat al-Nidal og hönnun og framkvæmd fjölda hryðjuverkaaðgerða í Khuzestan-héraði“.

Samkvæmt réttindahópum eins og Amnesty International taka yfirvöld í Íran fleiri af lífi árlega en nokkur önnur þjóð fyrir utan Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert