Þessi mun bráðlega lenda í slysi!

Adja gengur yfir karl nokkurn og freistar þess þannig að …
Adja gengur yfir karl nokkurn og freistar þess þannig að lækna hann af meinum sínum. AFP/Olympia de Maismont

„Þessi þarna, í bleiku peysunni, á eftir að lenda bráðlega í slysi,“ spáir hún án þess að blikna. „Þarna er líka maður sem kominn er til að rannsaka mig,“ bætir hún við án þess þó að benda á viðkomandi.

Múgurinn, sem saman er kominn í þorpinu Toeghin Peulh í Búrkína Fasó, rekur upp stór augu og hlustar í andakt á Ödju, tvítuga konu, sem sögð er búa yfir þeirri náðargáfu að geta heilað fólk með atbeina andanna.

Adja horfir á víxl til himins og á söfnuðinn fyrir framan sig. Andlit hennar allt í kippum. Hún lætur svo sem ekki mikið yfir sér, berfætt, með fléttað hár og í appelsínugulum stuttermabol og köflóttu pilsi. En veit hún hvað hún syngur?

Löng hefð fyrir heilun

Löng hefð er fyrir heilun í landinu enda þótt margir býsnist yfir henni. Yfirvöld eru líka umburðarlynd gagnvart slíkum gjörningi. „Hermt er að fólk blóti þessari hefð í sand og ösku á daginn en stundi hana á nóttunni,“ segir einn af aðstoðarmönnum Ödju við fulltrúa AFP-fréttastofunnar sem er á staðnum.

Adja ræðir við gest. Hún hefur mikið aðdráttarafl.
Adja ræðir við gest. Hún hefur mikið aðdráttarafl. AFP/Olympia de Maismont


Meðal þeirra sem leitað hafa til Ödju er fólk sem kveðst hafa orðið fyrir barðinu á illum öndum. Ung kona, Fatoumata, er ein þeirra en hún missti skyndilega allan mátt í fótum. Hún lá hreyfingarlaus á jörðinni meðan Adja hellti yfir hana vígðu vatni og gekk síðan yfir hana, berfætt. Bænasöngur viðstaddra hækkaði um eina áttund á meðan og rann saman við angistaróp annars andsetins fólks í hópnum sem beið eftir að komast að.

Getur ekki læknað alla

Adja gat ekki læknað Fatoumötu, hún reis ekki á fætur, en næsti skjólstæðingur, sem glímdi við sama vanda, fékk bót meina sinna, að því er virtist, og gekk alsæll á braut.

Fylgjendur Ödju segja aðdráttar­afl hennar einmitt liggja í þessu, hún geti ekki heilað alla og telji ekki eftir sér að viðurkenna það. Máttur hennar nái bara ákveðið langt. Það lýsi styrk og bendi til þess að mátturinn sé ósvikinn.

„Frægð Ödju byggist á ærleika hennar,“ sagði Awa Tiendrebeogo við AFP, en Adja á að hafa læknað ættingja hennar af þrálátum svima. „Við höfðum reynt allar mögulegar meðferðir og ekkert virkaði. Þá heyrðum við af Ödju og komum hingað.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert