Dóttir fyrrverandi einræðisherra Úsbekistan keypti fasteignir í Lundúnum og Hong Kong fyrir um 240 milljónir punda, eða um 41 milljarð íslenskra króna.
BBC greinir frá því að söngkonan og diplómatinn, Gulnara Karimova, hafi keypt eignirnar með fjármunum sem fengust með mútum og spillingu.
Rannsókn samtakanna Freedom For Eurasia leiddi í ljós að Karimova hafi notað endurskoðendafyrirtæki í Lundúnum og á Bresku Jómfrúareyjunum til þess að ganga frá kaupsamningum.
Rannsókn á athæfum Karimovu vekja upp nýjar efasemdir um viðleitni Bretlands til að takast á við ólöglegan auð.
Rannsóknin leiddi í ljós að auðvelt hafi verið fyrir Karimovu að kaupa eignirnar í Bretlandi sem sé „áhyggjuefni“.
Islam Karimov, faðir Gulnara, var forseti Úsbekistan frá árinu 1989 til dauðadags árið 2016.
Á þeim tíma var Gulnara Karimova söngkona, rak skartgripafyrirtæki og gengdi embætti sendiherra á Spáni. Árið 2014 hvarf hún hins vegar úr sviðsljósinu.
Síðar kom í ljós að hún var handtekin fyrir spillingu og í desember árið 2017 var hún dæmd sek. Árið 2019 var hún send í fangelsi fyrir að fylgja ekki eftir skilmálum um stofufangelsið sem hún sætti.
Saksóknarar sökuðu hana um að vera hluti af glæpasamtökum sem áttu eigur í tólf ríkjum að virði eins milljarðs Bandaríkjadala, þar á meðal í Bretlandi, Rússlandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
„Mál Karimovu er eitt stærsta mútu- og spillingarmál allra tíma,“ sagði Tom Mayne, einn þeirra sem stóð að rannsókn Freedom For Eurasia.
Karimova og samstarfsmenn hennar hafa þó nú þegar selt eitthvað af eignunum sem keyptar voru fyrir ólöglega fjármuni. Hún neitar öllum ásökunum.