Rússar hafa samþykkt að endurnýja samning um kornútflutning frá Úkraínu um Svartahafið um 60 daga, en núgildandi samningur rennur út þann 18. mars næstkomandi.
Sergei Vershinin, staðgengill utanríkisráðherra Rússlands, tilkynnti þetta eftir að samkomulag náðist um endurnýjunina í Sviss í dag.
„Rússar setja sig ekki upp á móti annarri framlengingu á Svartahafs-samningnum, eftir að hann rennur út í annað sinn þann 18. mars, en aðeins í 60 daga,“ sagði Vershinin í yfirlýsingu.
Upphaflega náðist samkomulag um kornútflutning frá Úkraínu um Svarta-hafið í lok júlí á síðasta ári og átti samningurinn að renna út í nóvember. Þá var hann framlengdur um 120 daga og nú hefur hann aftur verið framlengdur um 60 daga.
Úkraína er eitt helsta útflutningsland kornmetis í heiminum en aðfangakeðjur og útflutningur hafa truflast verulega vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Samningurinn, sem gerður var með aðkomu stjórnvalda í Tyrklandi og Sameinuðu þjóðanna, hefur skipt sköpum og tryggt útflutning á milljónum tonna af korni og annarra landbúnaðarvara frá úkraínskum höfnum frá því í ágúst.