Bæði Úkraínumenn og Rússar hafa greint frá miklu mannfalli er baráttan um yfirráð í Bakhmút-borg í Donetsk-héraði geisar.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði að fleiri en 1.100 rússneskir hermenn hafi fallið á síðustu dögum og mun fleiri séu alvarlega særðir.
Rússar greindu frá því að 220 úkraínskir hermenn hefðu látið lífið síðastliðinn sólarhring.
BBC greinir frá því að sérfræðingar telji borgina hafa lítið hernaðarlegt mikilvægi, en þrátt fyrir það hefur hún orðið að miðpunkti árásar Rússa.
Rússnesk yfirráð í borginni mundu þó þýða að Rússar væru nær takmarki sínu að ná yfirráðum yfir Donetsk-héraði. Héraðið er eitt af fjórum héruðum í Austur- og Suður-Úkraínu sem Rússar innlimuðu í september.
Orrustan um Bakhmút hefur nú staðið yfir í rúma sjö mánuði og telja vestrænir sérfræðingar að um 20 til 30 þúsund rússneskir hermenn hafi látið lífið eða særst við Bakhmút.