Þúsundir lækna í verkfall

Krafist betri launa í heilbrigðisgeiranum í Lundúnum í janúar síðastliðnum.
Krafist betri launa í heilbrigðisgeiranum í Lundúnum í janúar síðastliðnum. AFP/Carlos Jasso

Þúsundir breskra sjúkrahúslækna hófu þriggja daga verkfall í morgun vegna kröfu um hærri laun.

Þeir segja að launahækkanir þeirra í gegnum árin hafi verið lægri en sem nemur verðbólgunni í landinu. Miðað við það hafi launin þeirra í raun og veru lækkað um 26 prósent frá árinu 2008.

Lægri laun en starfsmenn kaffihúsa

Í nýrri auglýsingaherferð kemur fram að nýútskrifaðir læknar þéni minna en sumir starfsmenn kaffihúsa.

„Pret a Manger hefur tilkynnt að það ætli að borga allt að 2.411 krónur á tímann,“ sagði í auglýsingunni. „Læknir sem er nýkominn með réttindi þénar aðeins 2.409 krónur. Þökk sé ríkisstjórninni geturðu þénað meira á því að bjóða fólki upp á kaffi heldur en að bjarga sjúklingum. Í þessari viku ætla ungir læknar í verkfall til að fá greitt það sem þeir eiga skilið.“


Ungir læknar er heiti yfir þá lækna í Bretlandi sem eru ekki sérfræðingar en geta engu að síður verið með áratuga reynslu í starfi. Þriggja daga verkfall þeirra sem hófst í morgun er það lengsta sem þeir hafa farið í til þessa.

Fleiri verkföll eru fyrirhuguð á miðvikudaginn. Hundruð þúsunda starfsmanna ætla að leggja niður störf, þar á meðal kennarar, lestarstjórar neðanjarðarlesta, blaðamenn BBC og starfsfólk háskóla.

AFP/Carlos Jasso
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert