Var látinn borða mýs og gullfiska

Vegglistaverk af Sanda Dia í Leuven-háskóla.
Vegglistaverk af Sanda Dia í Leuven-háskóla.

Réttað verður aftur yfir átján fyrrverandi félögum belgíska bræðralagsins Reuzegom, í hinum virta Leuven-háskóla, vegna dauða nemanda við.

Nemandinn Sanda Dia, sem var dökkur á hörund, lést í kjölfar hrottalegrar busavígslu félagsins, en sakborningarnir þvertaka fyrir að kynþáttahatur hafi átt hlut í dauða hans samkvæmt the Guardian.

Dæmt var í málinu fyrir tæpu ári síðan en fjölskylda Dia áfrýjaði dómi fyrri dómara, sem sagðist aðeins geta litið til atburðarásarinnar daginn sem Dia lést.

Aðstandendur Dia krefjast þess aftur á móti að litið verði til allra atburða busavígslunnar, þar með talið dagana á undan, og að dómurinn verði þyngdur samkvæmt því.

Sakborningur og lögmaður hans mæta fyrir dómstól í dag.
Sakborningur og lögmaður hans mæta fyrir dómstól í dag. AFP

Látnir neyta óhóflegs magns af áfengi og fiskisósu

Busavígslan átti sér stað í desember 2018, þar sem Dia og tveir aðrir nemendur sættu mikilli niðurlægingu og pyntingu. Athöfnin stóð yfir í fleiri daga en á síðasta deginum var farið með nemendurna þrjá í skíðaskála í Norður-Belgíu.

Var þeim þá gert að standa í ísköldum brunni í margar klukkustundir og voru látnir neyta óhóflegs magns af áfengi og fiskisósu ásamt því að borða ýmsar verur eins og mýs og gullfiska.

Dia, sem ekki var með fyrirliggjandi heilsufarsvanda, var fluttur á sjúkrahús samdægurs þar sem hann síðar fékk hjartastopp. Hann lést tveimur dögum síðar af völdum bólgu í heila, sem var afleiðing óhóflegrar saltneyslu.

Lögmaðurinn Sven Mary ræðir við fjölmiðla í dag fyrir réttarhöldin.
Lögmaðurinn Sven Mary ræðir við fjölmiðla í dag fyrir réttarhöldin. AFP

Sungu „Kongó er okkar“ yfir heimilislausum manni

Eftir að Dia var fluttur á sjúkrahús reyndu nemendurnir að hylma yfir atburðina með því að eiga við vettvang glæpsins og eyða ýmsum myndböndum og símaskilaboðum, en þrátt fyrir það gat lögregla endurheimt öll sönnunargögn.  

Dauðsfall Dia hefur hrundið af stað umræðu um kynþáttafordóma í háskólum Belgíu eftir að myndbönd uppgötvuðust á símum sakborninganna, þar sem Reuzegom-félagsmenn hafa hópast í kringum svartan heimilislausan mann til að syngja  „Kongó er okkar“. 

Einn lögmaður sakborninganna sagði húðlit Dia ekki vera ástæðuna fyrir þeim misþyrmingum sem sem hann hefði þurft að sæta. Hann sagði sakborningana hafa verið vini Dia og að þeir hafi „ekki séð húðlit hans“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert