Hundruð flóttafólks reyndu að komast yfir landamæri Bandaríkjanna frá Mexíkó á sunnudag. Ástæða áhlaupsins er sögð vera orðrómur um „dag innflytjandans“ en í tilefni hans hafi átt að hleypa fleira fólki yfir landamærin. Niðurstaðan reyndist þveröfug og var fólki mætt með táragasi og fjölda löggæslufólks.
Mikil töf hefur verið á vinnslu umsókna þeirra sem sækja um hæli í Bandaríkjunum frá Mið-Ameríku og Mexíkó. Þá hafa sumir beðið í sex mánuði eftir að geta bókað tíma hjá viðeigandi aðilum til þess að geta sótt um hæli í Bandaríkjunum.
Atburðurinn á sunnudag er sagður hafa hafist á grunni orðróms um „dag innflytjandans“ sem myndi gera fólki kleift að komast yfir landamærin í meiri mæli. Þá hafi myndbönd af brú við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna, nánar til tekið frá borginni Ciudad Juarez í Mexíkó til El Paso í Texas ríki, sýnt fólk hlaupa yfir landamærabrú öskrandi „til Bandaríkjanna.“
Mikill fjöldi þeirra sem reynir að komast yfir landamærin er sagður flýja ofbeldi og mikla fátækt á heimaslóðum. Um það bil tvö hundruð þúsund manns gera tilraun til þess að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna frá Mexíkó í hverjum mánuði.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa reynt að fæla fólk frá því að mæta að landamærunum án þess að sækja um málsmeðferð fyrst. Landamæraverðir hafa nú aukna heimild til þess að vísa fólki frá á landamærunum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur áður lofað því að veita flóttafólki hæli og binda enda á mikla notkun fangageymsla landamæraeftirlitsins.