Vopnainnflutningur til Evrópu tvöfaldaðist

Úkraínskir hermenn skammt frá Bakhmút í Dónetsk-héraði í Úkraínu.
Úkraínskir hermenn skammt frá Bakhmút í Dónetsk-héraði í Úkraínu. AFP/Sergei Shestak

Vopnainnflutningur til Evrópu næstum tvöfaldaðist á síðasta ári. Aðalástæðan fyrir því er mikill innflutningur til Úkraínu, sem er orðinn þriðji stærsti áfangastaðurinn þegar kemur að vopnum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPRI).

Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar í fyrra og síðan þá hafa harðir bardagar verið háðir í landinu.

Pólland og Noregur kaupa fleiri vopn

Innflutningur vopna til Evrópu jókst um 93 prósent á milli ára. Hann hefur einnig aukist vegna meiri hernaðarútgjalda evrópskra þjóða á borð við Pólland og Noreg.

Búist er við því að vopnainnflutningur til Evrópu muni aukast enn frekar.

Ef Úkraína er ekki tekin með í reikninginn jókst innflutningurinn þrátt fyrir það um 35 prósent á síðasta ári, að því er segir í skýrslunni.

Þriðja mesta magn vopna í heiminum er nú flutt inn til Úkraínu. Aðeins Katar og Indland standa evrópsku þjóðinni framar í þessum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert