Agnar Már Másson
Flugskeytaárás sem lenti á fjölmörgum íbúðabyggingum í úkraínsku borginni Kramatorsk í morgun varð einum að bana og þrír aðrir eru særðir. Frá þessu greindi Volodimír Selenskí Úkraínuforseti á Facebook-síðu sinni í morgun.
„Rússneskt flugskeyti lenti í miðbæ borgarinnar,“ sagði Selenskí og bætti við að sex byggingar hefðu eyðilagst í árásinni. „Að minnsta koti þrír slösuðust. Einn dó.“
Selenskí deildi myndbandi frá árásinni sem sýnir lögreglu og björgunarsveitir að störfum fyrir framan hálfeyðilagt þriggja hæða múrsteinshús.
„Þetta illa ríki heldur áfram að herja á óbreytta borgara,“ sagði forsetinn og bætti við að björgunaraðgerðir séu í fullum gangi.
Kramatorsk er staðsett í austanverðu Donetsk-héraði. Héraðið hefur að hluta til verið undir stjórn aðskilnaðarsinna síðan árið 2014. Stærsta borg héraðsins er undir stjórn þeirra en rússnesk stjórnvöld hafa lýst yfir stuðningi við aðskilnaðarsinnana.
Rússneskt stjórnvöld ætla sér að ná völdum yfir öllu héraðinu, enda lýstu þau yfir að það væri hluti af Rússlandi við upphaf innrásarinnar í Úkraínu.
Snemma í febrúar voru þrír drepnir og tuttugu særðust í árás á íbúðabyggingu í borginni.
Í apríl í fyrra dóu 60 almennir borgarar í árás á lestarstöð borgarinnar. Þeir sem létust voru á flótta og er árásin talin vera ein sú mannskæðasta síðan stríðið hófst.