Sakfelld fyrir að gefa þungunarrofslyf

Justyna Wydrzynska ræðir við fréttamenn í dag.
Justyna Wydrzynska ræðir við fréttamenn í dag. AFP/Wojtek Radwanski

Pólski aðgerðasinninn Justyna Wydrzynska hlaut í dag dóm fyrir að veita annarri konu þungunarrofslyf. Málið er fordæmalaust en þetta er í fyrsta sinn sem dómur er felldur í slíku tilfelli samkvæmt frásögn the Guardian

Wydrzynska er hluti samtakanna Abortion Dream Team sem veitir pólskum konum, sem þess óska, aðstoð við að nálgast þungunarrofslyf. Hún átti yfir höfði sér þriggja ára fangelsisvist fyrir að senda konunni lyfin, en var dæmd til að inna af hendi átta mánuði af samfélagsþjónustu. Hún hyggst áfrýja dómnum.

Konan fórnalamb heimilisofbeldis

Hún segir konuna sem um ræddi hafa verið fórnalamb heimilisofbeldis sem hafði samband við neyðarlínu ADT. Hún hafi óskað eftir aðstoð til að rjúfa meðgöngu sína, þar sem eiginmaður hennar hafi hótað að kæra hana til lögreglu ef hún reyndi að nálgast lyfin eða ferðaðist til Þýskalands til að binda enda á meðgönguna.

Ströng lög um þungunarrof tóku við í Póllandi árið 2021, undir stjórn forsetans Andzej Duda, og er aðgerðin einungis heimiluð í tilfellum sifjaspells, nauðgunar eða ef þungunin stefnir lífi móður í hættu.

Gat ekki nálgast lyfin sjálf

Refsilög eiga ekki við um þungunarrof sem framkvæmd eru af konunum sjálfum, heldur eiga aðeins við aðila sem veita aðstoð við þungunarrof. ADT samtökin veita því aðeins ráðgjöf um hvernig megi nálgast lyfin en veita þau ekki.

Konan sem um ræddi var að sögn Wydrzynska í einangrun með manni sínum vegna kórónuverufaraldursins og hafi því ekki getað nálgast lyfin sjálf á netinu. Wydrzynska hafi því ákveðið að senda henni lyf sem hún átti sjálf.

„Ég stend ekki ein frammi fyrir dómstólnum,“ sagði Justyna Wydrzynska í réttarsalnum. „Á bak við mig eru félagar mínir og hundruð kvenna sem ég hef ekki verið svo heppin að kynnast enn.“

Í opinberri yfirlýsingu ADT segir: „Við erum sterkar og saman erum við enn sterkari, við munum aldrei hætta að styðja hvor við aðra og við munum aldrei hætta að veita aðstoð við þungunarrof“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert