Afhendingu kafbáta vegna varnarsamstarfs Ástralíu, Bretlands og Bandaríkjanna, kallað AUKUS hefur verið flýtt. Mikil spenna er á milli Kína og Bandaríkjanna um þessar mundir en eitt af markmiðum AUKUS er að svara auknum umsvifum Kína hvað varðar sjóhernað.
Í gær kynnti Joe Biden, Bandaríkjaforseti breytingu á tímalínu afhendingu fyrstu kafbáta AUKUS samstarfsins til Ástralíu. Forsætisráðherrar Bretlands og Ástralíu, Rishi Sunak og Anthony Albanese voru einnig viðstaddir. CNN greinir frá þessu.
Kafbátarnir munu merkja auknar varnir í Kyrrahafi en áætlað er að fyrsta sending kafbáta frá Bandaríkjunum, sem mun innihalda þrjá talsins, muni koma á áfangastað árið 2032. Þá bætist breskir kafbátar einnig við á árunum 2040 til 2050.
Kafbátarnir munu geta borið alls kyns búnað svo sem tundurskeyti og stýriflaugar ásamt áhöfnum og herliði.
Kínversk stjórnvöld eru sögð hafa viðrað áhyggjur af því að kjarnorkuvopn muni vera um borð í kafbátunum en AUKUS samstarfið hafi blásið á þær ásakanir. Einhverjir kafbátanna muni þó vera knúnir af kjarnorku. Þá mótmæli Kínverjar þróun þessa samstarfs og segi hana uppfulla af viðhorfi frá tímum Kalda stríðsins.
Þegar breytt áætlun AUKUS var tilkynnt lýsti Sunak yfir áhyggjum sínum vegna framgangs Kína, Norður-Kóreu og Íran og sagði mikilvægt að styrkja varnir eigin þjóða.