Japönsk Youtube-stjarna sem gerðist þingmaður hefur verið leyst frá störfum fyrir að hafa aldrei mætt til vinnu.
BBC greinir frá því að Yoshikazu Higashitani hafi verið leystur frá störfum sem þingmaður japanska þingsins, en hann hafði aldrei stigið niður fæti þar.
Higashitani var kjörinn á þingið fyrir sjö mánuðum og ekki verið viðstaddur einn einasta þingfund.
Aganefnd þingsins rak þingmanninn en það hefur einungis gerst tvisvar sinnum áður síðan 1950. Þá er þetta í fyrsta sinn sem þingmaður er rekinn fyrir að mæta ekki til vinnu.
Higashitani hefur birt umdeild myndskeið á Youtube undir nafninu GaaSyy og er talið að hann búi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Í síðustu viku krafðist þingið að Higashitani kæmi til Tókýó og bæðist formlega afsökunar í þinginu. Hann mætti hins vegar ekki.
Í staðinn birti hann myndskeið á Youtube þar sem hann sagðist ætla gefa fórnarlömbum jarðskjálftanna í Tyrklandi í febrúar laun sín.
Higashitani hefur neitað að mæta á þingið þar sem hann óttast að verða handtekinn vegna ásakana um svik og ærumeiðingar frægra einstaklinga sem hann hefur gert myndskeið um.