Þrjá velska vini á þrítugsaldri, þá Alex Gwynne, Dan Phillips og Kyle Bowen frá bænum Merthyr Tydfil í Suður-Wales, óraði ekki fyrir því þegar þeir stofnuðu lottóklúbb í háskólanum fyrir sex árum að einn daginn félli sá stóri þeim í skaut.
Það var Gwynne sem annaðist miðakaupin fyrir hönd klúbbsins föstudaginn 3. febrúar og sagði hann breska ríkisútvarpinu BBC að hann hefði verið sem steinilostinn þegar hann bar tölur klúbbsins saman við þær sem dregnar voru út og áttaði sig á því að þeir félagar voru milljón pundum ríkari, jafnvirði 170,7 milljóna íslenskra króna.
„Vinningurinn gæti ekki hafa komið á betri tíma fyrir okkur alla núna þegar við siglum hraðbyri inn í fullorðinslífið,“ segir Gwynne við BBC. „Við erum allir að koma okkur fyrir og gera langtímaáætlanir fyrir framtíðina, staðan er dálítið önnur núna en þegar við stofnuðum lottóklúbbinn, það er á hreinu,“ segir hann enn fremur.
Hvatinn að stofnun lottóklúbbsins var þegar hópur árinu á undan þeim í skólanum vann 5.000 pund í breska lottóinu og einn kennara þeirra grínaðist þá með að nemendurnir þyrftu nú að stofna eigin klúbb. Vinirnir þrír tóku hann á orðinu og unnu eitt skiptið 550 pund, andvirði tæpra 94.000 króna að núvirði, en það var ekki fyrr en nú í febrúar sem lottódísirnar brostu við þeim og færðu þeim 170 milljónir gegnum gamla lottófélagsskapinn frá skólaárunum.