Taílensk yfirvöld leita nú að stálhylki sem týndist úr kolaknúinni orkuvirkjun í héraðinu Prachinburi. Hylkið inniheldur stórhættuleg geislavirk efni og varað er við beinni snertingu við hlutinn.
Starfsfólk orkuvirkjunarinnar tilkynnti á föstudaginn að hylkið hefði ekki fundist í reglulegri athugun. Hylkið inniheldur efnið Sesín-137, sem er afar geislavirkt en ekki hefur verið gefið upp hversu mikið af efninu er í hylkinu
Stálhylkið er sívalningslagað, 30 sentímetrar á lengd, þrettán sentímetrar á breidd og 25 kíló.
Kittiphan Chitpentham, eigandi virkjunarinnar, segir að um helgina hafi ekki náðst að finna hylkið. Hann telur hylkið hafa dottið af veggfestingum sem héngu í 20 metra hæð en mælingar á geislun á svæðinu gefa til kynna að búið sé að taka hylkið af landareigninni.
„Við erum við biðja fólk á svæðinu um að hjálpa okkur við að finna það,“ segir Narong Nakornjinda, bæjarstjóri Prachinburi, í samtali við AFP.
Hylkið er notað til mælinga á gufuþrýstingi í orkuveitunni en Sesín-137 gæti ollið krabbameini eða öðrum alvarlegum veikindum, skyldi maður komast í beina snertingu við það.
Yfirvöld hafa varað við því að opna hylkið og hafa lýst yfir að virkjunin skoði upptökur úr öryggismyndavélum sínum til þess að finna þann sem tók hylkið.
Svipað atvik gerðist í Ástralíu í janúar, þegar kjarnorkuhlaðið hylki datt af flutningabíl á þjóðvegi í óbyggðum Ástralíu og fannst ekki fyrr en tveimur vikum seinna.