Keppast um að verða fyrstir að drónanum

Hér má sjá MQ-9 Repaer dróna sem er í eigu …
Hér má sjá MQ-9 Repaer dróna sem er í eigu franska hersins. AFP/PHILIPPE LOPEZ

Rússar hyggjast nú reyna að sækja bandarískan dróna sem féll í Svartahaf. Rússar hafa verið sakaðir um það að fljúga herþotu á drónann og með því stækka átakasvæðið vegna stríðsins í Úkraínu. Um leið reyna Bandaríkjamenn að koma í veg fyrir að dróninn komist í hendur Rússa.

Haft er eftir yfirmanni öryggisráðs Rússa, Níkólaí Patrúsjev, að nauðsynlegt sé að ná í drónann og verja sjálfstæði Rússlands. Þá sé flug drónans sönnun þess að Bandaríkjamenn taki þátt í átökunum í Úkraínu.

Eldsneyti yfir drónann

Bandaríski herinn hefur sagt athæfi Rússa í háloftunum vera háskalegt og ófaglegt. Árekstur þotunnar við drónann hefði getað orðið til þess að þotan myndi hrapa.

Þá halda Bandaríkjamenn því fram að dróninn, sem er af gerðinni MQ-9 Reaper, hafi verið að sinna venjubundnum aðgerðum yfir alþjóðlegu hafsvæði. MQ-Reaper drónar geta borið flugskeyti og leysistýrðar sprengjur.

Herinn segir rússnesku herþotuna hafa látið eldsneyti rigna á drónann og síðan rekist á hann með þeim afleiðingum að hann hrapaði í Svartahaf.

„At­vikið með banda­ríska drónann MQ-9 Reaper sem Rúss­ar ögruðu yfir Svarta­hafi sýn­ir að Pútín er til­bú­inn að víkka út deil­una og fá fleiri að borðinu,“ segir Oleksí Danílov, ráðherra þjóðarör­ygg­is- og varn­ar­mála í Úkraínu, um málið í yfirlýsingu á sam­fé­lags­miðlum.

„Til­gang­ur­inn með þessu at­hæfi er að auka hættu­stigið,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert