Borgarstjórn Parísar áætlar að um 10.000 tonn af rusli liggi nú á víð og dreif um götur Parísar í kjölfar verkfalls sorphirðufólks í borginni.
Aðstoðarmanneskja Anne Hidalgo, borgarstjóra Parísar, segir ruslið hafa aukist úr 7.000 tonnum síðan í byrjun vikunnar.
Frönsk verkalýðsfélög boðuðu til verkfalla 7. Mars síðastliðinn vegna áforma ríkistjórnar Emmanuel Macron um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64, og eru því nú á tólfta degi.
Macron skipaði á fimmtudaginn forsætisráðherra landsins, Elisabeth Borne, að nýta sérstakt stjórnarskrárvald til að koma eftirlaunafrumvarpinu óvinsæla í gegn, án atkvæðagreiðslu á þingi. Borne mætti síður góðum viðtökum frá þingmönnum, sem púuðu á hana og sungu franska þjóðsönginn hástöfum í mótmælaskyni.