„Snitches get stitches,“ segir 23 ára gamall brasilískur maður á hótelherbergi í Tromsø í Noregi kvöldstund eina í febrúar í fyrra. Maðurinn hefur verið búsettur í Noregi um árabil. Á hótelinu er hann staddur ásamt fleiri mönnum og umræðuefnið er verkefni sem þeir vilja bjóða honum að taka þátt í. Það sem Brasilíumaðurinn veit ekki er að hann er eini maðurinn í herberginu sem er ekki lögreglumaður.
Tálbeituaðgerð lögreglunnar var vel undirbúin og markmið hennar var aðeins eitt: að komast á snoðir um hver lagði á ráðin og skipaði fyrir um að Bård nokkur Lanes, 33 ára gamall uppljóstrari lögreglunnar í suðausturumdæminu, skyldi skotinn til bana á bílastæði í Tønsberg að kvöldi 20. apríl 2021.
Norska lögreglan flutti inn lögreglumenn sem mæltir voru á portúgalska tungu, móðurmál þess brasilíska. Um hann var svo setið og hann stöðvaður fyrir minni háttar umferðarlagabrot í Ósló 1. desember 2021 og settur í aftursæti lögreglubifreiðar. Þar sat einn erlendu lögreglumannanna og bar allt yfirbragð þess að vera þar í haldi lögreglu.
Þeir taka tal saman og fyrir „hreina tilviljun“ kemur í ljós að þeir tala sömu tungu. Þeir bindast fastmælum um að hittast aftur og á nokkrum mánuðum vinnur lögreglumaðurinn traust þess brasilíska og býður honum að taka þátt í verkefni án þess að hann gruni að hann er í raun einn fjögurra manna sem nú hafa allir verið ákærðir fyrir þátt sinn í vígi Lanes.
Á hótelinu í Tromsø bjóða lögreglumennirnir hinum grunaða rauðvín, og allt samtal þeirra er hljóðritað. Lögreglan neitar nú að hafa boðið meira en þrjú glös en ákærði segir fimm. Talið berst fljótlega að örlögum Lanes og sá sem í leikritinu er „höfuðpaurinn“ spyr Brasilíumanninn fjölda spurninga um Lanes og hina þrjá sem nú eru ákærðir. Það er í þessu samtali sem Brasilíumaðurinn segir áður ívitnuð orð, „snitches get stitches“, í þá sem kjafta frá þarf að sauma nokkur spor.
Í Bård Lanes voru hins vegar engin spor saumuð. Hann var úrskurðaður látinn á Vestfold-sjúkrahúsinu í Tønsberg sama kvöld og maður, sem talinn er vera einn ákærðu, þó ekki sá brasilíski, skaut hann einu skoti fyrir utan sólbaðsstofuna Brun & Blid þar sem Lanes var á leið í ljós með kærustu sinni. Hún var þegar komin inn á stofuna.
Lögreglan þykist þess fullviss að víg Lanes hafi komið til af því að Lasse nokkrum, áhrifamanni í undirheimum Suðaustur-Noregs og einum ákærðu í málinu, hafi verið kunnugt um að Lanes, sem var vel kunnur skuggsælli starfsemi Lasse og hans fólks, hafi verið uppljóstrari lögreglunnar og veitt henni mikilvægar upplýsingar um ýmis viðskipti sem ekki var ætlað að fara hátt. Ummæli Brasilíumannsins á hótelinu og fleira sem hann sagði styðja þessa kenningu.
Aðalmeðferð málsins hefst fyrir Héraðsdómi Vestfold í Tønsberg á þriðjudaginn en nú er snurða hlaupin á þráð lögreglunnar. Andreas Christiansen héraðssaksóknari segir útilokað að nota þau gögn lögreglunnar sem urðu til í samtali sem átti sér stað í kjölfar þess að lögreglumenn í dulargervi veittu grunaða áfengi í tálbeituaðgerð. Sönnunargögnin séu því ónýt að hluta.
Undir það tekur Øystein Storrvik, verjandi Brasilíumannsins, af öllum mætti. Krefst hann þess að öll samtöl tálbeitulögregluþjónanna við grunaða verði afskráð sem sönnunargögn í málinu. Aðgerðin beri engin merki venjulegs samtals, út frá lagabókstafnum sé einfaldlega um yfirheyrslu að ræða. Við yfirheyrslur beri að kynna þeim, sem yfirheyrður er, réttindi hans auk þess að benda honum á að honum sé ekki skylt að tjá sig og að hann eigi rétt á að hafa lögmann viðstaddan. Allt vitanlega formsatriði sem lagt hefðu vandlega undirbúna lögregluaðgerð í rúst.
Héraðsdómurinn í Tønsberg hefur enn ekki tekið afstöðu til notkunar gagnanna vafasömu, en það verður hann að gera strax eftir helgi ellegar fresta upphafi aðalmeðferðar. Fredrik Borg Johannessen, lögmaður lögreglunnar í suðausturumdæminu, hefur fengið fjölda spurninga frá norska ríkisútvarpinu NRK um hvað nákvæmlega lögreglan hafi aðhafst í tálbeituaðgerðinni og hvort það geti orðið henni að falli við sönnunarfærsluna.
„Verjandi eins ákærðu krefst þess að notkun sönnunargagna, sem urðu til við tálbeituaðgerðina, verði óheimil. [...] Þetta er til meðferðar hjá dómstólnum og því get ég ekki eins og er svarað spurningum sem snúa að því mati sem farið hefur fram og er grundvöllur þess að ákæruvaldið tók þessi gögn inn í sönnunarfærslu sína,“ segir Johannessen og bætir því við að sjálf lögregluaðgerðin hafi verið í samræmi við þær verklagsreglur sem um slíkar aðgerðir gildi.
Kveikjan að því að Lanes var ráðinn af dögum er talin hafa verið beiðni tengiliðar hans hjá lögreglunni um að útvega ákveðnar upplýsingar um áðurnefndan Lasse í mars 2021, sex vikum áður en Lanes var skotinn til bana.
Norska dagblaðið VG hefur fjallað ítarlega um víg Lanes og auk þess rætt við Lasse sem þegar situr inni og afplánar dóm í öðru máli. Þá hefur blaðið undir höndum samtöl sem fram fóru gegnum samfélagsmiðilinn Instagram milli lögreglumannsins og Lanes. Fimmta mars 2021 áttu þeir þessa samræðu:
Lögreglumaður: „Ertu á lífi? 😉“
Lanes: [með fjölda brostákna] „Hæ, auðvitað lifi ég. Takk fyrir að spyrja“
Greinir hann svo frá því að fimm grímuklæddir menn hafi brotið rúður í leiguíbúðinni sem hann þá bjó í. Þykist hann þess viss að Lasse standi á bak við þá aðgerð. Sjálfur hefur Lanes skipt um símanúmer og flutt í aðra íbúð. Lögreglumaðurinn falast eftir meiri upplýsingum um Lasse.
Lögreglumaður: „Allt sem þú getur fundið út um hann er gulls ígildi, hverja hann hittir, hvar hann æfir og svo framvegis“
Nokkrum skilaboðasendingum síðar:
Lanes: „Ég veit ekki um nokkurn mann sem grefur eins djúpt og ég 😊 allar upplýsingar koma að lokum til mín [þumalfingursmerki]“
Lögreglumaður: „He he þar hefurðu rétt fyrir þér, þú ert öflugur þar [brosmerki og krepptir upphandleggsvöðvar]“
Lögreglumaður: „Væri flott að komast að því hvar hann stundar viðskipti sín svo við getum gripið hann glóðvolgan og fengið almennilegan dóm“
Lanes: „Já sammála!!!“
Þarna átti Lanes sex vikur eftir ólifað. Þau Lise kærastan hans ætla saman á sólbaðsstofu í Tønsberg að kvöldi 20. apríl í hitteðfyrra. Hvorugt þeirra veitir athygli blárri Volkswagen-bifreið sem veitt hefur þeim eftirför um stund og hvorugt þeirra veit af GPS-sendinum sem festur er undir bifreið Lanes. Sá sendir var keyptur nokkrum vikum áður á nafni Lasse, höfuðákærða í málinu.
Þau fara inn á stofuna, Lise leggst í ljósabekkinn en Lanes kveðst ætla á salernið fyrst. Hann birtist svo í mynd öryggismyndavélar verslunarmiðstöðvarinnar sem sólbaðsstofan er í og þá á harðahlaupum frá miðstöðinni. Á eftir honum hleypur maður og skýtur mörgum skotum af skammbyssu í átt að Lanes.
Eitt skotanna hæfir hann og hann fellur niður. Hann nær þá að hringja í lögregluna og segist halda að hann hafi verið skotinn. Lögregla og sjúkralið koma á vettvang en Lanes á þá aðeins skammt ólifað. Hann er úrskurðaður látinn á sjúkrahúsinu sem er aðeins steinsnar frá vettvangi.
Lögreglan í suðausturumdæminu neitar að svara nokkrum spurningum fjölmiðla um hvort Bård Lanes hafi verið uppljóstrari hennar. VG er þó kunnugt um að lögreglumaður hafi gefið þær upplýsingar í yfirheyrslu við rannsókn málsins að hann hefði verið í sambandi við Lanes yfir lengra tímabil og fengið hjá honum upplýsingar.
Eins hefur VG fengið að ræða við Lasse í fangelsinu. Hann þvertekur fyrir að til hafi staðið að ráða Lanes af dögum, eingöngu hafi átt að taka í lurginn á honum. Um tugur heimildarmanna VG í undirheimunum er sammála um að margir hafi haft horn í síðu Lanes. Allir hafi vitað að hann hafi verið að tala við lögregluna.
Færri vissu að Lanes hafði fengið greininguna væga þroskahömlun, lett psykisk utviklingshemmet á norsku. Af þeim sökum gekk honum illa í skóla, að sögn bróður hans lærði hann ekki að tala að ráði fyrr en á fimmta ári. VG vísar í rannsóknir sem sýni að fólk með sömu greiningu geti átt erfitt með að meta áhættu auk þess að eiga í erfiðleikum með að gera greinarmun á réttu og röngu.
Lanes var öryrki og persónuleikapróf sem hann gekkst undir árið 2007 sló því föstu að óvíst væri að hann skildi afleiðingar gjörða sinna til fulls. Hann hlaut dóma fyrir innbrot, bátaþjófnað og handhöfn fíkniefna. Síðasti dómurinn var kveðinn upp árið 2012. Bróðirinn, Glenn Lanes, greinir VG frá því að hann hafi fengið margar heimsóknir frá lögreglumönnum í fangelsið.
Hann telur lögregluna hafa misnotað sér andlegt ástand bróður hans. Lanes hafi ekki skilið fullkomlega hverjar afleiðingar samstarfs hans við lögregluna gætu orðið. Blaðamenn VG setja fram þá spurningu hvort lögreglunni hafi verið kunnugt um andlega annmarka uppljóstrara síns.
Fjöldi heimildarmanna VG greinir frá því að Lanes hafi átt einkar auðvelt með að lenda í deilum og margir hafi troðið við hann illsakir, þar á meðal stórglæpamenn. Deilurnar hafi gjarnan snúist um peninga, hótanir gagnvart einhverjum eða bara einhverja mjög smávægilega hluti.
Þegar blaðamenn VG heimsækja Lasse í Ringerike-fangelsið tekur þessi 31 árs gamli fangi á móti þeim í Boss-peysu og Versace-inniskóm. Hann býður gestunum til sætis.
„Ég var með áætlun sem gekk út á að Bård yrði tekinn og tuktaður til, ekki drepinn,“ segir Lasse þar sem hann situr í svörtum leðursófa í heimsóknarherberginu. „Hann hætti aldrei að angra okkur. Hefði ég ekki gert eitthvað hefði það haldið áfram út í hið óendanlega,“ svarar hann spurningu um hvers vegan hann vildi láta lesa Lanes pistilinn.
Viðsjár Lasse og Lanes áttu sér margra ára sögu. Hafði fyrrverandi kærasta Lasse meðal annars kært Lanes fyrir hótanir en málið var fellt niður hjá lögreglu.
Hvers vegna telur Lasse að það hafi verið gert?
„Af því að hann gaf lögreglunni upplýsingar. Bård fékk að gera nákvæmlega það sem hann vildi vegna þess að hann gaf þeim vísbendingar um hitt og þetta,“ svarar Lasse sem við yfirheyrslur hjá lögreglu hefur fengið að sjá fjölda Instagram-samtala Lanes sem teljast til gagna í málinu. „Það er sjúkt að lögreglan hélt áfram að nota Bård sem uppljóstrara þegar allir vissu að hann var það,“ telur Lasse.
„Þegar ég les þessa yfirheyrslu yfir lögreglumanninum, hann veit að Bård var búinn að lenda upp á kant við hina og þessa, hann veit að hann var orðinn stressaður, búinn að skipta um símakort og skipta um heimilisföng. Hann vissi allan tímann að fólk var á eftir Bård,“ segir Lasse að lokum í prísund sinni í Ringerike-fangelsinu.
VG sendi Ole Bredrup Sæverud, lögreglustjóra suðausturumdæmisins, 26 spurningar um málið á sínum tíma, áður en ákærur voru gefnar út, þar á meðal um hvort lögreglunni hefði verið kunnugt um fötlun Lanes og hvort hann hefði verið formlega skráður uppljóstrari í gögnum lögreglu.
Sæverud svaraði því skriflega að rannsókn málsins stæði yfir og því væri honum ómögulegt að svara spurningunum án þess að fara inn á brautir sem spillt gætu rannsókninni og haft áhrif á málsmeðferðina fyrir dómi. Neitaði hann á þeim forsendum að svara og hefur reyndar ekki gert enn, þrátt fyrir að ákært hafi verið og aðalmeðferð hefjist á þriðjudaginn.
Lögreglumaðurinn sem var í sambandi við Lanes neitaði öllum svörum á sömu forsendum og áðurnefndur Johannessen, lögmaður lögreglunnar, vill heldur ekki svara því hvort lögreglan telji að samskipti Lanes við hana hafi að lokum orðið hans banabiti í Tønsberg 20. apríl 2021.