„Kjaftatíkur eru saumaðar“

Úr myndefni öryggismyndavélar við verslunarmiðstöðina Kilen í Tønsberg að kvöldi …
Úr myndefni öryggismyndavélar við verslunarmiðstöðina Kilen í Tønsberg að kvöldi 20. apríl 2021. Þessi maður er talinn hafa skotið Bård Lanes til bana. Hann er enn fremur talinn vera einn fjögurra ákærðra í málinu, 27 ára gamall maður frá Vestur-Noregi. Mynd/Lögreglan í Tønsberg

„Snitches get stitches,“ seg­ir 23 ára gam­all bras­il­ísk­ur maður á hót­el­her­bergi í Tromsø í Nor­egi kvöld­stund eina í fe­brú­ar í fyrra. Maður­inn hef­ur verið bú­sett­ur í Nor­egi um ára­bil. Á hót­el­inu er hann stadd­ur ásamt fleiri mönn­um og umræðuefnið er verk­efni sem þeir vilja bjóða hon­um að taka þátt í. Það sem Bras­il­íumaður­inn veit ekki er að hann er eini maður­inn í her­berg­inu sem er ekki lög­reglumaður.

Tál­beituaðgerð lög­regl­unn­ar var vel und­ir­bú­in og mark­mið henn­ar var aðeins eitt: að kom­ast á snoðir um hver lagði á ráðin og skipaði fyr­ir um að Bård nokk­ur Lanes, 33 ára gam­all upp­ljóstr­ari lög­regl­unn­ar í suðaust­urum­dæm­inu, skyldi skot­inn til bana á bíla­stæði í Tøns­berg að kvöldi 20. apríl 2021.

Norska lög­regl­an flutti inn lög­reglu­menn sem mælt­ir voru á portú­galska tungu, móður­mál þess bras­il­íska. Um hann var svo setið og hann stöðvaður fyr­ir minni hátt­ar um­ferðarlaga­brot í Ósló 1. des­em­ber 2021 og sett­ur í aft­ur­sæti lög­reglu­bif­reiðar. Þar sat einn er­lendu lög­reglu­mann­anna og bar allt yf­ir­bragð þess að vera þar í haldi lög­reglu.

Þeir taka tal sam­an og fyr­ir „hreina til­vilj­un“ kem­ur í ljós að þeir tala sömu tungu. Þeir bind­ast fast­mæl­um um að hitt­ast aft­ur og á nokkr­um mánuðum vinn­ur lög­reglumaður­inn traust þess bras­il­íska og býður hon­um að taka þátt í verk­efni án þess að hann gruni að hann er í raun einn fjög­urra manna sem nú hafa all­ir verið ákærðir fyr­ir þátt sinn í vígi Lanes.

Þrjú glös...kannski fimm

Á hót­el­inu í Tromsø bjóða lög­reglu­menn­irn­ir hinum grunaða rauðvín, og allt sam­tal þeirra er hljóðritað. Lög­regl­an neit­ar nú að hafa boðið meira en þrjú glös en ákærði seg­ir fimm. Talið berst fljót­lega að ör­lög­um Lanes og sá sem í leik­rit­inu er „höfuðpaur­inn“ spyr Bras­il­íu­mann­inn fjölda spurn­inga um Lanes og hina þrjá sem nú eru ákærðir. Það er í þessu sam­tali sem Bras­il­íumaður­inn seg­ir áður ívitnuð orð, „snitches get stitches“, í þá sem kjafta frá þarf að sauma nokk­ur spor.

Bård Lanes var ekki óumdeildur maður í Tønsberg. Margir töldu …
Bård Lanes var ekki óum­deild­ur maður í Tøns­berg. Marg­ir töldu hann hvers manns hug­ljúfa en upp­lýs­ing­ar blaðamanna VG benda einnig sterk­lega til þess að marg­ir hafi viljað hann feig­an – og þær urðu ein­mitt mála­lykt­ir. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Í Bård Lanes voru hins veg­ar eng­in spor saumuð. Hann var úr­sk­urðaður lát­inn á Vest­fold-sjúkra­hús­inu í Tøns­berg sama kvöld og maður, sem tal­inn er vera einn ákærðu, þó ekki sá bras­il­íski, skaut hann einu skoti fyr­ir utan sólbaðsstof­una Brun & Blid þar sem Lanes var á leið í ljós með kær­ustu sinni. Hún var þegar kom­in inn á stof­una.

Lög­regl­an þyk­ist þess full­viss að víg Lanes hafi komið til af því að Lasse nokkr­um, áhrifa­manni í und­ir­heim­um Suðaust­ur-Nor­egs og ein­um ákærðu í mál­inu, hafi verið kunn­ugt um að Lanes, sem var vel kunn­ur skugg­sælli starf­semi Lasse og hans fólks, hafi verið upp­ljóstr­ari lög­regl­unn­ar og veitt henni mik­il­væg­ar upp­lýs­ing­ar um ýmis viðskipti sem ekki var ætlað að fara hátt. Um­mæli Bras­il­íu­manns­ins á hót­el­inu og fleira sem hann sagði styðja þessa kenn­ingu.

Krefst þess að gögn­in verði af­skráð

Aðalmeðferð máls­ins hefst fyr­ir Héraðsdómi Vest­fold í Tøns­berg á þriðju­dag­inn en nú er snurða hlaup­in á þráð lög­regl­unn­ar. Andreas Christian­sen héraðssak­sókn­ari seg­ir úti­lokað að nota þau gögn lög­regl­unn­ar sem urðu til í sam­tali sem átti sér stað í kjöl­far þess að lög­reglu­menn í dul­ar­gervi veittu grunaða áfengi í tál­beituaðgerð. Sönn­un­ar­gögn­in séu því ónýt að hluta.

Und­ir það tek­ur Øystein Storrvik, verj­andi Bras­il­íu­manns­ins, af öll­um mætti. Krefst hann þess að öll sam­töl tál­beitu­lög­regluþjón­anna við grunaða verði af­skráð sem sönn­un­ar­gögn í mál­inu. Aðgerðin beri eng­in merki venju­legs sam­tals, út frá laga­bók­stafn­um sé ein­fald­lega um yf­ir­heyrslu að ræða. Við yf­ir­heyrsl­ur beri að kynna þeim, sem yf­ir­heyrður er, rétt­indi hans auk þess að benda hon­um á að hon­um sé ekki skylt að tjá sig og að hann eigi rétt á að hafa lög­mann viðstadd­an. Allt vit­an­lega forms­atriði sem lagt hefðu vand­lega und­ir­búna lög­regluaðgerð í rúst.

Héraðsdóm­ur­inn í Tøns­berg hef­ur enn ekki tekið af­stöðu til notk­un­ar gagn­anna vafa­sömu, en það verður hann að gera strax eft­ir helgi ell­egar fresta upp­hafi aðalmeðferðar. Fredrik Borg Johann­essen, lögmaður lög­regl­unn­ar í suðaust­urum­dæm­inu, hef­ur fengið fjölda spurn­inga frá norska rík­is­út­varp­inu NRK um hvað ná­kvæm­lega lög­regl­an hafi aðhafst í tál­beituaðgerðinni og hvort það geti orðið henni að falli við sönn­un­ar­færsl­una.

Volkswagen-bifreiðin sem fylgdi bifreið Lanes eftir síðasta kvöldið sem hann …
Volkswagen-bif­reiðin sem fylgdi bif­reið Lanes eft­ir síðasta kvöldið sem hann lifði fannst í ljós­um log­um í Sem í Tøns­berg skömmu eft­ir víg hans. Ljós­mynd/​Slökkviliðið í Vest­fold

„Verj­andi eins ákærðu krefst þess að notk­un sönn­un­ar­gagna, sem urðu til við tál­beituaðgerðina, verði óheim­il. [...] Þetta er til meðferðar hjá dóm­stóln­um og því get ég ekki eins og er svarað spurn­ing­um sem snúa að því mati sem farið hef­ur fram og er grund­völl­ur þess að ákæru­valdið tók þessi gögn inn í sönn­un­ar­færslu sína,“ seg­ir Johann­essen og bæt­ir því við að sjálf lög­regluaðgerðin hafi verið í sam­ræmi við þær verklags­regl­ur sem um slík­ar aðgerðir gildi.

„Ertu á lífi?“

Kveikj­an að því að Lanes var ráðinn af dög­um er tal­in hafa verið beiðni tengiliðar hans hjá lög­regl­unni um að út­vega ákveðnar upp­lýs­ing­ar um áður­nefnd­an Lasse í mars 2021, sex vik­um áður en Lanes var skot­inn til bana.

Norska dag­blaðið VG hef­ur fjallað ít­ar­lega um víg Lanes og auk þess rætt við Lasse sem þegar sit­ur inni og afplán­ar dóm í öðru máli. Þá hef­ur blaðið und­ir hönd­um sam­töl sem fram fóru gegn­um sam­fé­lags­miðil­inn In­sta­gram milli lög­reglu­manns­ins og Lanes. Fimmta mars 2021 áttu þeir þessa sam­ræðu:

Lög­reglumaður: „Ertu á lífi? 😉

Lanes: [með fjölda bros­tákna] „Hæ, auðvitað lifi ég. Takk fyr­ir að spyrja“

Grein­ir hann svo frá því að fimm grímu­klædd­ir menn hafi brotið rúður í leigu­íbúðinni sem hann þá bjó í. Þyk­ist hann þess viss að Lasse standi á bak við þá aðgerð. Sjálf­ur hef­ur Lanes skipt um síma­núm­er og flutt í aðra íbúð. Lög­reglumaður­inn fal­ast eft­ir meiri upp­lýs­ing­um um Lasse.

Lög­reglumaður: „Allt sem þú get­ur fundið út um hann er gulls ígildi, hverja hann hitt­ir, hvar hann æfir og svo fram­veg­is“

Nokkr­um skila­boðasend­ing­um síðar:

Lanes: „Ég veit ekki um nokk­urn mann sem gref­ur eins djúpt og ég 😊 all­ar upp­lýs­ing­ar koma að lok­um til mín [þum­al­fing­urs­merki]“

Lög­reglumaður: „He he þar hef­urðu rétt fyr­ir þér, þú ert öfl­ug­ur þar [bros­merki og kreppt­ir upp­hand­leggsvöðvar]“

Lög­reglumaður: „Væri flott að kom­ast að því hvar hann stund­ar viðskipti sín svo við get­um gripið hann glóðvolg­an og fengið al­menni­leg­an dóm“

Lanes: „Já sam­mála!!!“

Neit­ar að svara því hvort Lanes hafi verið upp­ljóstr­ari

Þarna átti Lanes sex vik­ur eft­ir ólifað. Þau Lise kær­ast­an hans ætla sam­an á sólbaðsstofu í Tøns­berg að kvöldi 20. apríl í hitteðfyrra. Hvor­ugt þeirra veit­ir at­hygli blárri Volkswagen-bif­reið sem veitt hef­ur þeim eft­ir­för um stund og hvor­ugt þeirra veit af GPS-send­in­um sem fest­ur er und­ir bif­reið Lanes. Sá send­ir var keypt­ur nokkr­um vik­um áður á nafni Lasse, höfuðákærða í mál­inu.

Þau fara inn á stof­una, Lise leggst í ljósa­bekk­inn en Lanes kveðst ætla á sal­ernið fyrst. Hann birt­ist svo í mynd ör­ygg­is­mynda­vél­ar versl­un­ar­miðstöðvar­inn­ar sem sólbaðsstof­an er í og þá á harðahlaup­um frá miðstöðinni. Á eft­ir hon­um hleyp­ur maður og skýt­ur mörg­um skot­um af skamm­byssu í átt að Lanes.

Fáir vissu að Lanes hafði fengið greininguna væga þroskahömlun, lett …
Fáir vissu að Lanes hafði fengið grein­ing­una væga þroska­höml­un, lett psyk­isk ut­vik­lings­hem­met á norsku. Af þeim sök­um gekk hon­um illa í skóla, að sögn bróður hans lærði hann ekki að tala að ráði fyrr en á fimmta ári. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni


Eitt skot­anna hæf­ir hann og hann fell­ur niður. Hann nær þá að hringja í lög­regl­una og seg­ist halda að hann hafi verið skot­inn. Lög­regla og sjúkra­lið koma á vett­vang en Lanes á þá aðeins skammt ólifað. Hann er úr­sk­urðaður lát­inn á sjúkra­hús­inu sem er aðeins steinsnar frá vett­vangi.

Lög­regl­an í suðaust­urum­dæm­inu neit­ar að svara nokkr­um spurn­ing­um fjöl­miðla um hvort Bård Lanes hafi verið upp­ljóstr­ari henn­ar. VG er þó kunn­ugt um að lög­reglumaður hafi gefið þær upp­lýs­ing­ar í yf­ir­heyrslu við rann­sókn máls­ins að hann hefði verið í sam­bandi við Lanes yfir lengra tíma­bil og fengið hjá hon­um upp­lýs­ing­ar.

And­leg­ir ann­mark­ar

Eins hef­ur VG fengið að ræða við Lasse í fang­els­inu. Hann þver­tek­ur fyr­ir að til hafi staðið að ráða Lanes af dög­um, ein­göngu hafi átt að taka í lurg­inn á hon­um. Um tug­ur heim­ild­ar­manna VG í und­ir­heim­un­um er sam­mála um að marg­ir hafi haft horn í síðu Lanes. All­ir hafi vitað að hann hafi verið að tala við lög­regl­una.

Færri vissu að Lanes hafði fengið grein­ing­una væga þroska­höml­un, lett psyk­isk ut­vik­lings­hem­met á norsku. Af þeim sök­um gekk hon­um illa í skóla, að sögn bróður hans lærði hann ekki að tala að ráði fyrr en á fimmta ári. VG vís­ar í rann­sókn­ir sem sýni að fólk með sömu grein­ingu geti átt erfitt með að meta áhættu auk þess að eiga í erfiðleik­um með að gera grein­ar­mun á réttu og röngu.

Lanes var ör­yrki og per­sónu­leika­próf sem hann gekkst und­ir árið 2007 sló því föstu að óvíst væri að hann skildi af­leiðing­ar gjörða sinna til fulls. Hann hlaut dóma fyr­ir inn­brot, bátaþjófnað og hand­höfn fíkni­efna. Síðasti dóm­ur­inn var kveðinn upp árið 2012. Bróðir­inn, Glenn Lanes, grein­ir VG frá því að hann hafi fengið marg­ar heim­sókn­ir frá lög­reglu­mönn­um í fang­elsið.

Tróð illsak­ir við marga

Hann tel­ur lög­regl­una hafa mis­notað sér and­legt ástand bróður hans. Lanes hafi ekki skilið full­kom­lega hverj­ar af­leiðing­ar sam­starfs hans við lög­regl­una gætu orðið. Blaðamenn VG setja fram þá spurn­ingu hvort lög­regl­unni hafi verið kunn­ugt um and­lega ann­marka upp­ljóstr­ara síns.

Fjöldi heim­ild­ar­manna VG grein­ir frá því að Lanes hafi átt einkar auðvelt með að lenda í deil­um og marg­ir hafi troðið við hann illsak­ir, þar á meðal stór­glæpa­menn. Deil­urn­ar hafi gjarn­an snú­ist um pen­inga, hót­an­ir gagn­vart ein­hverj­um eða bara ein­hverja mjög smá­vægi­lega hluti.

Bryggjan í Tønsberg, tæplega 60.000 íbúa bæ 100 kílómetra suður …
Bryggj­an í Tøns­berg, tæp­lega 60.000 íbúa bæ 100 kíló­metra suður af Ósló. mbl.is/​Atli Steinn Guðmunds­son

Þegar blaðamenn VG heim­sækja Lasse í Rin­gerike-fang­elsið tek­ur þessi 31 árs gamli fangi á móti þeim í Boss-peysu og Versace-inni­skóm. Hann býður gest­un­um til sæt­is.

„Ég var með áætl­un sem gekk út á að Bård yrði tek­inn og tuktaður til, ekki drep­inn,“ seg­ir Lasse þar sem hann sit­ur í svört­um leður­sófa í heim­sókn­ar­her­berg­inu. „Hann hætti aldrei að angra okk­ur. Hefði ég ekki gert eitt­hvað hefði það haldið áfram út í hið óend­an­lega,“ svar­ar hann spurn­ingu um hvers veg­an hann vildi láta lesa Lanes pist­il­inn.

Fékk að gera ná­kvæm­lega það sem hann vildi

Viðsjár Lasse og Lanes áttu sér margra ára sögu. Hafði fyrr­ver­andi kær­asta Lasse meðal ann­ars kært Lanes fyr­ir hót­an­ir en málið var fellt niður hjá lög­reglu.

Hvers vegna tel­ur Lasse að það hafi verið gert?

„Af því að hann gaf lög­regl­unni upp­lýs­ing­ar. Bård fékk að gera ná­kvæm­lega það sem hann vildi vegna þess að hann gaf þeim vís­bend­ing­ar um hitt og þetta,“ svar­ar Lasse sem við yf­ir­heyrsl­ur hjá lög­reglu hef­ur fengið að sjá fjölda In­sta­gram-sam­tala Lanes sem telj­ast til gagna í mál­inu. „Það er sjúkt að lög­regl­an hélt áfram að nota Bård sem upp­ljóstr­ara þegar all­ir vissu að hann var það,“ tel­ur Lasse.

„Þegar ég les þessa yf­ir­heyrslu yfir lög­reglu­mann­in­um, hann veit að Bård var bú­inn að lenda upp á kant við hina og þessa, hann veit að hann var orðinn stressaður, bú­inn að skipta um síma­kort og skipta um heim­il­is­föng. Hann vissi all­an tím­ann að fólk var á eft­ir Bård,“ seg­ir Lasse að lok­um í prísund sinni í Rin­gerike-fang­els­inu.

Verj­ast allra svara

VG sendi Ole Bredrup Sæ­verud, lög­reglu­stjóra suðaust­urum­dæm­is­ins, 26 spurn­ing­ar um málið á sín­um tíma, áður en ákær­ur voru gefn­ar út, þar á meðal um hvort lög­regl­unni hefði verið kunn­ugt um fötl­un Lanes og hvort hann hefði verið form­lega skráður upp­ljóstr­ari í gögn­um lög­reglu.

Sæ­verud svaraði því skrif­lega að rann­sókn máls­ins stæði yfir og því væri hon­um ómögu­legt að svara spurn­ing­un­um án þess að fara inn á braut­ir sem spillt gætu rann­sókn­inni og haft áhrif á málsmeðferðina fyr­ir dómi. Neitaði hann á þeim for­send­um að svara og hef­ur reynd­ar ekki gert enn, þrátt fyr­ir að ákært hafi verið og aðalmeðferð hefj­ist á þriðju­dag­inn.

Lög­reglumaður­inn sem var í sam­bandi við Lanes neitaði öll­um svör­um á sömu for­send­um og áður­nefnd­ur Johann­essen, lögmaður lög­regl­unn­ar, vill held­ur ekki svara því hvort lög­regl­an telji að sam­skipti Lanes við hana hafi að lok­um orðið hans bana­biti í Tøns­berg 20. apríl 2021.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert