Í dag eru tuttugu ár liðin frá því að landher Bandaríkjanna hóf innrás sína í Írak ásamt bandamönnum sínum frá Bretlandi, Ástralíu og Póllandi, auk þess sem fleiri ríki lýstu yfir stuðningi sínum við innrásina og/eða tóku þátt í hernaðaraðgerðum eftir að innrásinni sem slíkri var lokið.
Rót innrásarinnar lá í grunsemdum vesturveldanna um að Saddam Hussein, einræðisherra Íraks, hefði áform um að koma sér upp gjöreyðingarvopnum í trássi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem samþykktar voru í kjölfar innrásar Íraka í Kúveit í ágúst 1990, og ítrekaðar síðan í ályktunum ráðsins 1995 og 1999.
Innrásin sjálf tók um það bil einn mánuð, þar sem herir bandamanna náðu höfuðborginni Bagdad á sitt vald 9. apríl, og hinn 1. maí 2003 lýsti George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, yfir, að helstu hernaðaraðgerðum væri lokið. Við tóku hins vegar löng átök við uppreisnarmenn innan Íraks, og lauk Íraksstríðinu sem slíku ekki fyrr en í desember 2011. Enn eru þó viðvarandi róstur og átök innan Íraks, sem rekja má til innrásarinnar.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir að innrásin hafi verið mjög umdeild á sínum tíma.
„Bretar og Bandaríkjamenn sameinuðust um að ráðast inn í Írak, og gáfu tvær meginástæður, annars vegar að það væru gjöreyðingarvopn í landinu og hins vegar því að Írak væri uppspretta hryðjuverka undir forystu Husseins,“ segir Björn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.