Boris Johnson í gin ljónsins í dag

Boris Johnson svarar fyrir á breska þinginu í dag.
Boris Johnson svarar fyrir á breska þinginu í dag. AFP

Boris Johnson, þingmaður Íhaldsflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, fer fyrir breska þingið í dag til að svara fyrir um hvort hann hafi sagt ósatt um endurtekin veisluhöld í Downingstræti 10 á tímum kórónuveirufaraldursins.

Málið, sem kallað hefur verið „partygate“ þar í landi, snýst um teiti sem haldin voru í ráðherrabústaðnum við Downingstræti 10, á hápunkti heimsfaraldursins og í bága við sóttvarnalög og samkomutakmarkannir.

Johnson er grunaður um að hafa villt um fyrir þinginu í sambandi við samkomurnar.

Johnson gaf nýverið frá sér 52 blaðsíðna yf­ir­lýs­ingu þar sem hann viður­kenn­ir að hann hafi af­vega­leitt þingið með því að segja að öll­um regl­um og fyr­ir­mæl­um hafi verið framfylgt, en að hann og starfsmenn Downingstrætis hafi ekki verið þess vísir að samkomurnar brytu gegn sóttvarnalögum.

„Vertu bara ákveðin og þeim mun leiðast“

Sjö manna þingnefnd hefur málið til skoðunar og mun fella úrskurð um málið í sumar en þá kemur í ljós hvort refsiaðgerðum verði beitt, til dæmis hvort Johnson verði vikið af þingi.

Þingnefndin birti nýverið bráðabirgðaskýrslu um málið þar sem fram kemur það mat hennar að Johnson og starfsmenn hans hafi vitað betur.

Skýrslan sýndi meðal annars WhatsApp-skilaboð milli háttsettra aðstoðarmanna Johnson, þar á meðal fyrrverandi kynningarfulltrúa hans, Jack Doyle, þar sem rætt er um hvernig megi réttlæta veisluhöld eins og jólaboð og kveðjudrykki fyrir blaðamanni.

Í WhatsApp-skilaboðunum frá nóvember 2021 spyr starfsmaðurinn Doyle hvort hann eigi að segja blaðamanni að sóttvarna hafi verið gætt og forðast að tala um hvort drykkir hafi verið við hönd. Þá svaraði Doyle starfsmanninum: „Vertu bara ákveðin og þeim mun leiðast“.

126 starfsmenn sektaðir

Johnson, ásamt fjármálaráðherranum Rishi Sunak, hlaut sekt frá lögreglu í kjölfar veisluhalda á sínum tíma, en alls hafa 126 starfsmenn ráðherrabústaðarins verið sektaðir eftir að rannsókn lögreglu lauk á endurteknum veisluhöldum á tímum heimsfaraldurs.

Yfirheyrslur á þinginu hefjast klukkan tvö í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert