Þingmönnum var heitt í hamsi á breska þinginu í dag þegar að Boris Johnson, þingmaður Íhaldsflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sat fyrir svörum um hið svokallaða „partygate“.
Þurfti Johnson meðal annars að svara fyrir hvort að hann hafi sagt ósatt um endurteknar samkomur og veislur í Downingstræti tíu á meðan að kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. BBC greinir frá.
Johnson er grunaður um að hafa villt um fyrir þinginu í sambandi við samkomurnar. Sjö manna þingnefnd hefur málið til skoðunar og mun kveða upp úrskurð í sumar en þá kemur í ljós hvort refsiaðgerðum verði beitt, til dæmis hvort Johnson verði vikið af þingi.
Johnson sat fyrir svörum í rúma þrjá tíma en málið hófst á því að fyrrverandi forsætisráðherrann lagði hönd á Biblíuna og sór þess eið að hann hefði ekki logið að þinginu og hélt því fram að samkomurnar hefðu verið mikilvægir vinnu viðburðir sem, að hans sögn, voru leyfilegir á þeim tíma.
Hann viðurkenndi þó síðar að samkomutakmarkanir hefðu ekki verið „fullkomnar“ í ráðherrabústaðnum. Margir þingmenn gáfu lítið fyrir útskýringar Johnson og Harriet Harman, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði staðhæfingar fyrrverandi ráðherrans þunnar og þýðingarlitlar.
Þá lenti Johnson ítrekað upp á kant við Bernard Jenkin, þingmanni Íhaldsflokksins, sem sagði afsakanir Johnson um að hann hafi fengið þær upplýsingar frá aðstoðarmönnum að veisluhöldin væru leyfileg, vera algjört bull.
„Það sem ég sagði var byggt á því sem ég taldi mig vita og trúði á þeim tíma sem að ég sagði það,“ sagði Johnson og vísaði þá til þess er hann sagði þingmönnum í desember 2021 að öllum reglum hafi verið fylgt allan tímann í kórónuveirufaraldrinum.
Þá hélt Johnson því einnig fram að afmælisveisla sem var haldin honum til heiðurs í júní 2020, sem hann var síðar sektaður fyrir af lögreglunni í Bretlandi, hafi einnig verið samkoma tengd vinnu.