Hvattur til að hafna lögum gegn samkynhneigð

Kona frá Úganda horfir á umræður á þinginu um nýju …
Kona frá Úganda horfir á umræður á þinginu um nýju lögin. AFP/Stuart Tibaweswa

Sameinuðu þjóðirnar hafa sent út ákall til forseta Úganda, Yoweri Museveni, um að hann hafni lögum gegn samkynhneigð sem voru samþykkt á þingi landsins.

Samkynhneigð hefur verið ólögleg í landinu og á fólk lífstíðardóm yfir höfði sér fyrir að stunda kynlíf með einstaklingi af sama kyni.

Nýju lögin opna dyrnar fyrir því að hægt verði að dæma fólk í tíu ára fangelsi fyrir tilraun til samkynhneigðs athæfis eða að skilgreina sig sem samkynhneigðan.

Lögin voru samþykkt nánast einróma á þingi Úganda.

Svipuð lög voru samþykkt árið 2014 og sætti ríkisstjórn Úganda þá harðri gagnrýni af hálfu alþjóðasamfélagsins fyrir mannréttindabrot.

Lögin hafa nú verið send til forseta Museveni, sem hefur neitunarvald. Hanni hefur aftur á móti lýst yfir stuðningi við lögin og hefur gagnrýnt vestræn lönd fyrir að reyna að þröngva eigin gildum upp á aðrar þjóðir.

Samkynhneigð er ólögleg í yfir 30 Afríkulöndum en lög Úganda sem banna fólki að skilgreina sig sem samkynhneigt eru þau fyrstu sinnar tegundar, samkvæmt Human Rights Watch.

Stuðningsmenn nýju löggjafarinnar segja hana auðvelda yfirvöldum að berjast gegn hinsegin athæfi af ýmsu tagi, sem stríði gegn hefðbundnum og trúarlegum gildum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert