Ungverjaland mun ekki standa í vegi fyrir því að Svíþjóð geti gengið inn í Atlantshafsbandalagið (NATO).
Sænski miðillinn Dagens Nyheter greinir frá.
Sænska þingið samþykkti í gær að landið myndi ganga í NATO. Ungverjaland og Tyrkland eiga samt enn eftir að samþykkja aðild þeirra.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, leitaði svara hjá Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á leiðtogafundi Evrópusambandsins í Brussel í dag. Svíum þótti sérstakt að umsókn þeirra yrði ekki tekin fyrir á ungverska þinginu á mánudaginn, samhliða umsókn Finna.
Orban hefur nú tjáð Kristersson að Ungverjar muni ekki standa í vegi fyrir inngöngu Svía í NATO. Að sögn Kristerssons telur Orban þó ekki þörf á að samþykkja umsókn Svía fyrr en Tyrkir geri það.