Skólastjóra í Flórída í Bandaríkjunum hefur verið gert að segja upp störfum eftir að foreldri kvartaði yfir því að nemendum í sjötta bekk hefði verið sýnt klám.
Kvörtunin kom í kjölfar listkennslu í skólanum þar sem nemendum var sýnd Davíðsstyttan eftir Michelangelo. Styttan, sem er ein sú frægasta í vestrænni sögu, sýnir nakinn Davíð, persónu úr biblíunni sem drepur risann Golíat.
Foreldri barns taldi að efnið væri klámfengið og tvö önnur sögðust hafa viljað vita af kennslustundinni áður en hún fór fram. Í tímanum var einnig minnst á „Sköpun Adams“, málverk Michelangelo, og „Fæðingu Venusar“ eftir Botticelli, að því er BBC greinir frá.
Skólastjórinn Hope Carrasaquilla tilkynnti að hún hefði sagt upp störfum eftir að hafa fengið boð um að segja af sér eða vera rekin. Hún hafði gegnt starfinu í minna en eitt ár.
Stjórnarformaður skólans, Barney Bishop, sagði að skólastjórinn hefði í fyrra sent foreldrum tilkynningu þar sem varað var við því að nemendum yrði sýnd styttan af Davíð, en að slík tilkynning hefði ekki verið send í ár. Um alvarleg mistök væri að ræða þar sem foreldrar ættu rétt á að vita hvenær börnum þeirra væri kennt umdeilt efni.
„Við ætlum ekki að sýna leikskólabörnum alla styttuna af Davíð. Við ætlum ekki að sýna hana nemendum í öðrum bekk. Það að sjá styttuna af Davíð er viðeigandi á einhverjum aldri. Við ætlum að finna út úr því hvenær svo er,“ sagði Bishop.
Ríkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, tilkynnti á fimmtudag að til stæði að herða lög sem banna opinberum skólum að kenna kynfræðslu og kynvitund. Kennarar sem brjóta lögin standa frammi fyrir því að verða vikið úr starfi eða missa kennsluréttindi sín.