Lýðheilsustofnanir víða í Bandaríkjunum hafa lýst áhyggjum sínum af aukinni útbreiðslu mannskæðs gersvepps, eftir að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna gaf það út að tilfellum sýkinga hefði fjölgað verulega.
Sveppurinn sem um ræðir nefnist Candida auris. Stofnunin sagði fjölda sýkinga af hans völdum hafa tvöfaldast árið 2021.
Tilkynnt er nú um sýkingar sveppsins víða um landið og vinna embættismenn innan heilbrigðiskerfisins að því að takmarka útbreiðsluna, að því er fréttastofa ABC greinir frá.
Sveppurinn er almennt ekki hættulegur heilsuhraustu fólki, en fólk sem sem glímir við mikil og/eða langvarandi veikindi og dvelur mikið á heilbrigðisstofnunum á í aukinni hættu á að veikjast af völdum sveppsins.
Gersveppurinn er ónæmur fyrir mörgum lyfjum svo erfitt er að meðhöndla hann. Hann veldur auk þess alvarlegri sýkingu og er dánartíðni há vegna sýkingarinnar.
Sveppurinn greindist fyrst í Bandaríkjunum árið 2016. Á árunum 2019-2021 breiddist sveppurinn út til 17 ríkja. Búist er við að tilfellum hafi fjölgað enn frekar á síðasta ári, en þær tölur hafa ekki fengist.