Ísrael ekki í meiri hættu síðan árið 1973

Frá mótmælum í Tel Aviv um helgina.
Frá mótmælum í Tel Aviv um helgina. AFP

Mikil mótmæli brutust út í Ísrael í dag eftir að forsætisráðherra landsins, Benjamin Netanyahu, vék varnarmálaráðherra landsins, Yoav Gallant, frá störfum fyrr í dag.

Gallant, sem er í íhaldsflokki Netanyahus, Likud-flokknum, lýsti áhyggjum af þjóðaröryggi í landinu í kjölfar mótmæla gegn nýju lagafrumvarpi stjórnvalda.

Frumvarpið kveður meðal annars á um að stjórnvöld skipi hæstaréttardómara og að þinginu sé heimilt að fella niðurstöður hæstaréttar landsins.

Yfir hundrað þúsund manns hafa að undanförnu mótmælt frumvarpinu og sagt það ganga gegn lýðræðislegri stjórnskipan.

Netanyahu sjálfur ákærður fyrir svik

Netanyahu og ríkisstjórn hans hafa haldið því fram að breytingarnar séu nauðsynlegar til að koma á valdajafnvægi milli löggjafarvalds og dómsvalds. Netanyahu hefur gagnrýnt hæstarétt landsins fyrir að fara út fyrir valdsvið sitt.

Ríkislögmaður Ísrael, Gali Baharav-Miara, sakaði Netanyahu um ólögleg afskipti vegna lagafrumvarpsins á föstudag. Netanyahu var ákærður fyrir mútur, svik og trúnaðarbrot fyrir þremur árum, en hefur neitað allri sök. Gagnrýnendur hans telja eitt markmiða lagafrumvarpsins því vera að fella mögulega niðurstöðu dómsins með meirihluta á þingi. 

„Öryggi Ísrael er ævistarf mitt“

Gallant, sem áður var dyggur stuðningsmaður Netanyahu, sagði í ræðu sinni á laugardag að stöðva þyrfti löggjafarferlið samstundis og fresta því um nokkrar vikur.

Hann sagði gjá í samfélaginu myndast og að það ógnaði öryggi landsins. Hann biðlaði einnig til almennings láta af mótmælunum. „Öryggi Ísrael er ævistarf mitt,“ sagði Gallant.

Frá mótmælum á götum Tel Aviv í dag.
Frá mótmælum á götum Tel Aviv í dag. AFP/Ahmad Charabli

Skipti máli að þjóðin sé sameinuð

Brottrekstur Gallant hefur leitt til harðari mótmæla. Gadi Eiseinkot, fyrrverandi herforingi í landinu, sagði í samtali við við dagblaðið Haaretz að Netanyahu hafi sýnt fram á að öryggi Ísraels sé ekki í forgangi hjá honum.

Fyrrum forsætisráðherra landsins Naftali Bennet segir Ísrael ekki hafa verið í meiri hættu síðan Yom Kippur-stríðið árið 1973. 

„Ég sendi nú ákall til Netanyahus forsætisráðherra að draga til baka uppsögn Gallant,“ sagði Bennet. Hann sagði ekki skipta máli hver hefði rétt fyrir sér en að máli skipti að þjóðin sé sameinuð en ekki sundruð.

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra var vikið frá störfum vegna ummæla gegn …
Yoav Gallant, varnarmálaráðherra var vikið frá störfum vegna ummæla gegn lagafrumvarpi ríkisstjórnar. Samsett mynd
Ísraelskir mótmælendur veifa þjóðfánanum á götum Tel Aviv.
Ísraelskir mótmælendur veifa þjóðfánanum á götum Tel Aviv. AFP/Ahmad Charabli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert