NATO fordæmir „hættulega“ orðræðu um kjarnavopn

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi. AFP

Atlantshafsbandalagið (NATO) hefur fordæmt „hættulega og óábyrga“ orðræðu Rússa eftir ákvörðun Vladimírs Pútíns forseta um að láta flytja kjarnavopn vestur yfir landamærin til Hvíta-Rússlands.

NATO fylgist náið með stöðunni og hefur greint frá því að aðgerðin muni ekki leiða til þess að bandalagið breyti eigin kjarnorkustefnu.

Bandarísk stjórnvöld sögðust ekki trúa því að Rússar væru að undirbúa notkun kjarnavopna, að því er BBC greinir frá.

Gegn vilja hvítrússnesku þjóðarinnar

Hvíta-Rússland á landamæri að Rússlandi og Úkraínu auk NATO-ríkjanna Póllands, Lettlands og Litháens.

Úkraínumenn hafa óskað eftir neyðarfundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að ræða hugsanlega ógn af yfirlýsingu Pútíns.

Svetlana Tsíkhanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, sagði að yfirlýsing Pútíns færi gegn vilja hvítrússnesku þjóðarinnar og myndi gera landið að hugsanlegu skotmarki fyrir hefndarárásir.

Sagði Pútín sagði að bygging aðstöðu fyrir taktísk kjarnavopn í Hvítarússlandi yrði lokið fyrir 1. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert