Ísraelska vorið hafið?

Mótmælendur fyrir utan þinghúsið í Jerúsalem í dag.
Mótmælendur fyrir utan þinghúsið í Jerúsalem í dag. AFP

Mótmæli standa enn yfir í Ísrael og alsherjarverkfall var boðað í kjölfar umdeilds lagafrumvarps ísraelsku ríkisstjórnarinnar. Yfir hundrað þúsund manns hafa nú að und­an­förnu mót­mælt frum­varp­inu sem er sagt ganga gegn lýðræðis­legri stjórn­skip­an og hafa margir fjölmiðlar lýst mótmælunum sem „ísraelska vorinu“.

Einn af æðstu verkalýðsforingjum landsins, Arnon Bar-David, boðaði til alsherjarverkfalls í mótmælaskyni í dag „Það er markmið okkar að stöðva þetta löggjafarferli og okkur mun takast það,“ sagði Bar-David í ávarpi í sjónvarpsútsendingu.

Stuttu síðar var tilkynnt að starfsmenn heilbrigðiskerfisins myndu hefja verkfall að fullu, með víðtækum afleiðingum fyrir þjónustu opinberra spítala.

Netanyahu ávarpar þjóðina í dag

Talið er að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, ávarpi þjóðina í dag, aðeins degi eftir að hann vék varnarmálaráðherra landsins, Yoav Gallant, frá störfum fyrir að andmæla frumvarpinu af þjóðaröryggisástæðum. Forseti landsins, Isaac Herzog, hvatti einnig til þess í gær að frumvarpið yrði stöðvað samstundis.

„Ég hvet eindregið til þess að löggjafarferlið verði stöðvað samstundis til að varðveita samheldni ísraelsku þjóðarinnar,“ sagði Herzog í opinberri tilkynningu.

Margir fjölmiðlar í Ísrael hafa getið sér til um að Netanyahu tilkynni áform um að stöðva afgreiðslu frumvarpsins tímabundið, til að róa þjóðina.

Íhaldsstjórn Netanyahu hefur sætt mikilli gagnrýni vegna lagafrumvarpsins sem myndi meðal ann­ars veita stjórn­völdum heimild til að skipa hæsta­rétt­ar­dóm­ara og þing­inu heimild til að fella niður­stöður hæsta­rétt­ar lands­ins úr gildi með meirihluta atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert