Ísraelska vorið hafið?

Mótmælendur fyrir utan þinghúsið í Jerúsalem í dag.
Mótmælendur fyrir utan þinghúsið í Jerúsalem í dag. AFP

Mót­mæli standa enn yfir í Ísra­el og als­herj­ar­verk­fall var boðað í kjöl­far um­deilds laga­frum­varps ísra­elsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Yfir hundrað þúsund manns hafa nú að und­an­förnu mót­mælt frum­varp­inu sem er sagt ganga gegn lýðræðis­legri stjórn­skip­an og hafa marg­ir fjöl­miðlar lýst mót­mæl­un­um sem „ísra­elska vor­inu“.

Einn af æðstu verka­lýðsfor­ingj­um lands­ins, Arnon Bar-Dav­id, boðaði til als­herj­ar­verk­falls í mót­mæla­skyni í dag „Það er mark­mið okk­ar að stöðva þetta lög­gjaf­ar­ferli og okk­ur mun tak­ast það,“ sagði Bar-Dav­id í ávarpi í sjón­varps­út­send­ingu.

Stuttu síðar var til­kynnt að starfs­menn heil­brigðis­kerf­is­ins myndu hefja verk­fall að fullu, með víðtæk­um af­leiðing­um fyr­ir þjón­ustu op­in­berra spít­ala.

Net­anya­hu ávarp­ar þjóðina í dag

Talið er að Benjam­in Net­anya­hu, for­sæt­is­ráðherra Ísra­el, ávarpi þjóðina í dag, aðeins degi eft­ir að hann vék varn­ar­málaráðherra lands­ins, Yoav Gall­ant, frá störf­um fyr­ir að and­mæla frum­varp­inu af þjóðarör­ygg­is­ástæðum. For­seti lands­ins, Isaac Herzog, hvatti einnig til þess í gær að frum­varpið yrði stöðvað sam­stund­is.

„Ég hvet ein­dregið til þess að lög­gjaf­ar­ferlið verði stöðvað sam­stund­is til að varðveita sam­heldni ísra­elsku þjóðar­inn­ar,“ sagði Herzog í op­in­berri til­kynn­ingu.

Marg­ir fjöl­miðlar í Ísra­el hafa getið sér til um að Net­anya­hu til­kynni áform um að stöðva af­greiðslu frum­varps­ins tíma­bundið, til að róa þjóðina.

Íhalds­stjórn Net­anya­hu hef­ur sætt mik­illi gagn­rýni vegna laga­frum­varps­ins sem myndi meðal ann­ars veita stjórn­völd­um heim­ild til að skipa hæsta­rétt­ar­dóm­ara og þing­inu heim­ild til að fella niður­stöður hæsta­rétt­ar lands­ins úr gildi með meiri­hluta at­kvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka