Héraðsdómur Vestfold í norska bænum Tønsberg, 100 kílómetra suður af Ósló, hefur dæmt 45 ára gamlan mann í tólf ára fangelsi fyrir að lemja 64 ára gamlan nágranna sinn þar í bænum til bana með málmstöng þar sem fórnarlambið lá í rúmi sínu.
Kveikjan að verknaðinum var brennivínsflaska sem hinn dæmdi taldi nágranna sinn, Kjell Johnny Sandberg, hafa tekið ófrjálsri hendi á heimili hins fyrrnefnda sem saknaði flöskunnar þegar hann kom til heim úr miðbæjarför 11. maí í fyrra og hugðist setjast að drykkju.
Fann hann flöskuna þá hvergi og grunaði Sandberg um græsku, tók sér stöngina í hönd, braust formálalaust inn til nágranna síns og lét höggin dynja á honum þar til hann lá örendur. Hafði maðurinn sjálfur samband við lögreglu og tilkynnti að hann hefði myrt nágranna sinn.
Við eftirgrennslan lögreglu kom brennivínsflaskan hins vegar fljótlega í leitirnar og reyndist hafa staðið allan tímann inni í geymslu í íbúð þess sem dóminn hlaut.
Játaði maðurinn sök við réttarhöldin en kvaðst þó ekki muna eftir að hafa framið verknaðinn sjálfan enda mældist vínandi í blóði hans 2,4 prómill í kjölfar handtöku hans. Auk tólf ára fangelsis er manninum gert að greiða fjórum börnum hins látna 280.000 krónur hverju fyrir sig, jafnvirði 3,7 milljóna íslenskra króna, alls tæpar 15 milljónir í heildarbætur.
Í dóminum segir að dráp nágrannans hafi verið tilgangslaust, óskiljanlegt og bakað aðstandendum hins myrta þunga sorg. Verjandi hins dæmda hefur ekki svarað fyrirspurnum norska ríkisútvarpsins NRK um málið.