Keypti sjö skot­vopn í að­draganda á­rásarinnar

Mikil sorg ríkir í samfélaginu í kring vegna árásarinnar.
Mikil sorg ríkir í samfélaginu í kring vegna árásarinnar. AFP/Brendan Smialowski

Árásarmanninum, sem réðst inn í barnaskóla í Tennessee gær og skaut sex til bana, hafði tekist að útvega sér sjö skotvopn frá fimm stöðum í aðdraganda árásarinnar. Öll vopnin eru sögð hafa verið keypt á löglegan máta.

Guardian greinir frá því að foreldrar árásarmannsins, Hale sem var 28 ára gamall, hafi ekki talið viturlegt að hann ætti skotvopn. Þau hafi talið hann hafa selt sitt eina skotvopn og ekki verið meðvituð um hin sex en Hale bar þrjú þessara skotvopna við árásina.

Árásin hófst um klukkan þrjú í gærdag að íslenskum tíma eða klukkan 10.00 í Nashville. Þar réðst Hale inn í kristilega barnaskólann The Covenant School og skaut sex til bana áður en hann var skotinn til bana af lögreglu. Hale banaði þremur kennurum og þremur börnum.

Lögregla hefur ekki vitneskju um hvað gekk árásarmanninum til, en ljóst er að hann hafði skipulagt árásina í þaula. Var hann fyrrverandi nemi við skólann. Við húsleit á heimili hans fannst kort af skólanum og teikning af því hverju hann ætlaði að klæðast við verknaðinn. 

Greint hefur verið frá því að Hale hafi verið að gangast undir einhvers konar meðferð við andlegum kvillum, hvers kyns meðferðin eða kvillarnir eru liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Frá Nashville í dag.
Frá Nashville í dag. AFP/Brendan Smialowski
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert