Vladimír Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi í dag að refsiaðgerðir annarra þjóða gætu haft neikvæð áhrif á rússneskt samfélag. Hingað til hefur Pútín haldið því fram að Rússland hafi aðlagast nýjum raunveruleika og að refsiaðgerðirnar hafi ekki haft marktæk áhrif á þjóðina.
Vestrænar þjóðir hafa beitt Rússland refsiaðgerðum eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir rúmu ári og hafa þær sérstaklega beinst að útflutningi landsins á olíu og gasi.
Á sjónvarpsútsendum fundi með ríkisstjórn, sagði Pútín atvinnuleysi aldrei hafa verið lægra í landinu og að búist væri við að verðbólga myndi lækka um fjögur prósent.
„Við þurfum að styðja og styrkja jákvæða þróun í efnahagslífi okkar“ sagði Pútín og biðlaði til ríkisstjórnarinnar að hafa hraðar hendur án ónauðsynlegra tafa og skrifræðis.